Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Meiriháttar veruleikafirring!!!

Aum voru orð Ingibjargar Sólrúnar á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar um helgina.  Hún afneitar allri ábyrgð á stöðu dagsins og hefur þó verið í ríkisstjórn í eitt og hálft ár.

Fróðlegt að bera þau orð saman við orð Jóns Sigurðssonar fyrrum krataráðherra og núverandi formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins en hann sagði í kastljósi að eftirlitstæki FME hefðu verið i lagi í öllu venjulegu árferði.

Þetta sem Jón Sigurðsson kallar venjulegt árferði fór ekki að breytast fyrr en við Framsóknarmenn hættum í ríkisstjórn.  Öll ábyrgð á því að eftirlitstækin hafi ekki virkað er því á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar - ekki síst Samfylkingar.

Sama hvar á málið er litið, varnarorð Seðlabanka, erlendar úttektir og lausafjárþurrð - allt á tíma Samfylkingar.  Ingibjörg sagði hins vegar margsinnis að hér væri ekki kreppa.

Það hefur margt fallið á undarförum mánuðum en ekkert svipað og trúverðugleiki Ingibjargar Sólrúnar og Samfylkingarinnar.


Uppskerutími?

Sumarið hefur verið okkur Borgfirðingum gjöfult.  Nú er heyskapur langt kominn hjá mörgum bændum og árnar fullar af laxi (í það minnsta í samanburði við síðasta ár). 

Vegna þessa stalst ég til að kíkja undir kartöflugrösin og varð ekki fyrir vonbrigðum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. 

Ég fullvissa ykkur um að kartöflunar voru góðar með ramm íslensku smjöri.

 

 DSC06906

 

Kveðja Sveinbjörn


Hvers eiga Borgfirðingar að gjalda?

 

Á skessuhorni.is má þessa dagana lesa frétt um leikskólamál í Hvalfjarðarsveit og grein Bjargar Ólafsdóttur um leiksvæði grunn- og leikskólans á Varmalandi í Borgarbyggð.

Björg lýsir baráttu kennara og foreldra á Varmalandi við að fá fram nauðsynlegar breytingar á leiksvæði barnanna og hvers vegna nauðsynlegt reyndist að fá utanaðkomandi aðila til að gera öryggisúttekt á leiksvæðunum.  Ljót saga og ekki til eftirbreytni.

Í frétt um viðbyggingu við leikskólann Skýjaborg í Hvalfjarðarsveit er viðtal við leikskólastjórann Sigurð Sigurjónsson.  Þar segir m.a.  “...Sigurður sagði einungis eitt ár liðið frá því hann vakti athygli sveitarstjórnar á því að leikskólinn væri sprunginn og hrósaði þessum skjótu viðbrögðum”.

Þessi örlitli samanburður ætti að kenna meirihlutanum í Borgarbyggð önnur og betri vinnubrögð.  Ég hef hins vegar áhyggjur af því að það verði ekki, því miður.


Kvótinn og náttúran

Nú hefur verið tilkynnt um 30% samdrátt í þorskveiðum á næsta fiskveiðiári með tilheyrandi þrengingum einstaklinga, fyrirtækja, sveitarfélaga og þjóðarbús.  Ég kann ekki að meta hvort ákvörðunin er nákvæmlega rétt en tel að það hafi verið erfitt fyrir sjávarútvegsráðherra að bregðast öðruvísi við.SSV hefur kynnt skýrslu um áhrif þessa samdráttar á sveitarfélög á Vesturlandi og eru þær niðurstöður sláandi fyrir nokkur þeirra.  Ríkisstjórnin hefur lofað mótvægisaðgerðum en ég er ekkert hissa á viðbrögðum Ásbjörns Óttarssonar "eðalíhaldsmanns" úr Snæfellsbæ sem telur þær "þunnar, klisjukenndar og án gagns" eins og haft er eftir honum á skessuhorn.is.  Loforð ríkisstjórna eru það oft - of oft.Þessi samdráttur í atvinnumálum er hins vegar ekki nýr af nálinni og enn muna flestir þeir sem í landbúnaði starfa eftir áhrifum kvótakerfis, fullvirðisréttar, greiðslumarks og hvað þetta nú allt hefur heitað í gegnum tíðina.  Það var ekki glæsileg framtíðarsýnin hjá þeim sem á "moldina trúðu" og höfðu byggt allt nýtt þegar framleiðsluskerðingarnar voru tilkynntar í landbúnaðinum.  Suma svíður enn.Sá samdráttur var hins vegar vegna markaðsmála.  Í fiskveiðunum hrópar og kallar náttúran; "það er eitthvað að gerast".  Hvar er þorskurinn?  Hvers vegna koma hvorki lundinn og krían upp ungum? Hvar er laxinn?Verða menn ekki að gera meira en velta þessum spurningum fyrir sér og tal svo um mótvægisaðgerðir.

Deilur í byggðaráði - Algerlega óþarfar

Byggðaráð Borgarbyggðar réð í dag Ingibjörgu Ingu Guðmundsdóttur frá Brekkukoti sem skólastjóra Varmalandsskóla.  Ingibjörg Inga er mjög góður kostur og bíð ég hana hjartanlega velkomna til starfa og vænti mikils af henni.

Samt gat ég ekki greitt því atkvæði að hún yrði ráðin og fannst mjög miður.  Ástæða þess er hvernig staðið var að undirbúningu ráðningar, meðferð umsókna og framlagningu gagna í byggðaráði.

Í fyrsta lagi var þess ekki getið í dagskrá með fundarboði að til stæði að taka umsóknirnar fyrir né heldur fylgdu þær í gögnum með fundarboði.  Í dagskrá sem fylgdi fundarboði var einungis sagt að  framlagt yrði minnisblað sveitarstjóra.  Það var gert en í því var hvergi minnst á stöðu skólastjóra á Varmalandi.

Í annan stað sá ég ekki umsóknir um stöðuna fyrr en kl 17:00 í gær (í upphafi minnihlutafundar) eða réttum 15 klukkustundum áður en fundur byggðaráðs hófst.  Sá tími nýttist ekki til að fara yfir þessar umsóknir og meta hæfni umsækjanda svo maður tali nú ekki um að hafa samband við meðmælendur.

Meirihlutinn vísaði til umsagnar fræðslunefndar um umsækjendur en hvorki fundargerð fræðslunefndar eða umsögn nefndarinnar lá fyrir á fundi í morgun.

Meirihlutinn vísaði til viðtala sem sveitarstjóri og fræðslustjóri höfðu átt við umsækjendur en ekkert minnisblað lá frammi á fundinum eða skrifleg umsögn þeirra.

Með vísan í ofanritað var mér "lífsins ómögulegt", eins og ég segi í bókun minni, að standa að ráðningunni, hversu mikið sem mig langaði til þess.

Mér finnast þessi vinnubrögð óvirðing við byggðaráð og mér finnast þessi vinnubrögð ekki síður óvirðing við umsækjendur sem allir voru hæfir, eftir því sem fram kom á fundinum.

Fyrir réttu ári réðum við síðast skólastjóra að Varmalandi.  Þá var ferillinn annar og betri og því brá mér ekki vara við að ég yrði settur í þessa stöðu.  Ef sömu vinnubrögð hefðu verið viðhöfð núna hefði aldrei þurft að koma til þessarar deilu.  Af þessu verða menn að læra og vanda sig í framtíðinni.

Til að forðast allan misskilning finnst mér Ingibjörg Inga góður kostur í þessa stöðu og hef þegar hringt í hana og óskað henni til hamingju en jafnframt gert henni grein fyrir hvers vegna ég sat hjá við ráðninguna


Borgfirðingarhátíð

Nú er fjörið byrjað.  Við konan og Ragnheiður elsta dóttir okkar gengum á Eldborg með góðu fólki í kvöld.  Veðrið yndislegt og gangan ekki erfið.  Mig hefur lengi langað að ganga á Eldborg en ekki látið verða af því fyrr.

Eins og alltaf var gaman að koma að Snorrastöðum, ekki vantar gestrisnina á þeim bæ.

Í stofunni hjá Hauki var m.a. rætt um næsta forseta.  Ef marka má þær hugmyndir sem þar komu fram er ljóst að það verður hressileg kosningabarátta.

Hvet alla til að taka þátt í hátíðinni. Leyfi mér sérstaklega að benda á furðufótbolta á Hvanneyri á sunnudaginn.


Grunnskóli Borgarfjarðar - skólaslit

Það er alltaf ánægjulegt að vera við skólaslit.  Árangur vetrarins uppskorinn, gleði í hvers manns andliti og mæting er alltaf góð.

Guðlaugur skólastjóri flutti ágæta ræðu um gildi skólastarfs og hversu fjölbreytt það er.

Kennarar kölluðu á nemendur upp í kórinn og afhentu vitnisburð vetrarins.  Undantekningalaust voru börnin kurteis og heimili sínu til sóma.

Hluti skólastarfs og ekki sá veigaminnsti er óhefðbundinn.  Hann felst í leiklist, félagsmálum og almennum samskiptum.  Ég hef oft verið vitni að því að sá þáttur er í góðu lagi í Borgarfirði og þessir krakkar hafa oftar en ekki komið manni á óvart með glæsilegum sýningum, bæði á Kleppjárnsreykjum og Hvanneyri.

Reykholtskirkja er metfé fyrir Borgarfjörðinn.  Að hafa slíkt hús er ómetanlegt og hafi þeir sem höfðu metnað og dug til þeirrar byggingar ómælda aðdáun mína.

 

 


Innflytjendur - líka manneskjur

Á byggðaráðsfundi í morgun var kynnt tillaga að stefnu í málefnum innflytjenda í sveitarfélaginu.  tillögurnar voru unnar af starfshópi pólitíkusa og embættismanna.

Ég lét bóka að ég hefði velþóknun á vinnunni og tillögunum. 

Bætti við að þær hefðu verið enn betri ef fram hefði komið hvaða starfsmaður (starfsheiti) bæri ábyrgð á málaflokknum.  Auðvitað er alveg galið að það sé ekki ljóst hvaða starfsmaður fer með málaflokkinn, hvort sem hann leysir einn öll mál eða ekki.  Það kann að vera nógu erfitt fyrir "mállausa" innflytjendur að koma á skrifstofuna svo þeir þurfi ekki fyrst að reyna að gera grein fyrir sjálfum sér og erindi sínu í afgreiðlsunni.

Bætti einnig við að mér hefði þótt betra að hópurinn hefði reynt að kostnaðarmeta tillögur sínar, ekki síst þar sem þetta er í fyrsta sinn sem sveitarfélagið setur sér stefnu í málaflokknum.

Það skemmtilega gerðist var að Finnbogi Rögnvaldsson tók undir skoðanir mínar um að það þyrfti að kostnaðarmeta tillögurnar, með annarri bókun.   Það ætti ekki að gera það strax!!!!! heldur bara þegar stefnan verður sett í framkvæmd.

Mín skoðun er sú að við höfum nóg af stefnum sem ekki eru í framkvæmd og nægir þar að nefna Staðardagskrá 21.  Ef við setjum okkur stefnu í innflytjendamálum eigum við að hafa metnað til að framkvæma hana og þess vegna þurfum við að vita hvað hún kostar.  Ekki seinna --- heldur nákvæmlega núna.


Mikið lifandis skelfing...

Lofar góðu.  Nú er bara að krossa fingur og vona að sumarið verði ein alsherjar veisla.  Ég þekki engan "þjóðflokk" sem getur talið sjálfum sér trú um að allt sé að lagast þegar allt er að  fara til fjand......, eins og okkur laxveiðimenn.

 En..... tökum okkur nú tak og sleppum stórfiskunum og bara helst öllu sem við ekki nýtum sjálf í matinn.

Thight lines


mbl.is Fyrsti lax sumarsins kominn á land úr Norðurá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugvellir í Borgarfirði

Nú liggur á borði sveitarstjórnar samningsuppkast við Flugstoðir um lagfæringar á flugvellinum í Borgarnesi og viljayfirlýsing um að flugklúbbnum Kára verði falin rekstur hans.

Ég fékk mér bíltúr til að skoða mannvirkið.  Ótrúlega hrörlegt og að hluta að hverfa í mýrina. 

Velti fyrir mér hvað sé hægt að gera fyrir 14 milljónir þannig að þetta mannvirki verði nothæft.

Velti líka fyrir mér hver stefna sveitarfélagsins er varðandi flugvelli.  Hún er engin og ekki nema von í sjálfu sér. 

Vð gerð aðalskipulagsins verður að fara yfir þann málaflokk í heild sinni.

Á sveitarstjórnarfundi í gærkveld kom fram að svæðið í Borgarnesi er ekki einusinni deiliskipulagt.  Sýnir áhersluna sem hefur verið á málaflokknum.

Vegna ýmissa atriða er varða skipulag og landnýtingu ákvað ég að sitja hjá.  Ég er einhvern veginn þannig að ég vil helst vita hvað ég er að samþykkja. 

Trúlega hið besta mál en jafnvel þó það sé ekki nema mánuður í kosningar þarf það ekki endilega að þýða að allt þurfi að ganga af göflunum


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband