Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvar var fólkið?

Mikil umræða hefur verið í Borgarbyggð um álögur tengdar fasteignum.  Þær hafa hækkað mjög mikið á undanförnum árum.  Það á fyrst og fremst við fasteignatengdu gjöldin s.s. vatnsgjald og fráveitugjald.  Álagningarhlutfall fasteingaskatts hefur heldur lækkað ef litið er til lengri tíma en þar sem fasteignamatið hefur hækkað mjög mikið á svæðinu þá hafa álögur aukist.

Þar sem vitað var að þessi mál yrðu til umræðu á sveitarstjórnarfundi í gær bjóst ég við að íbúar myndu koma og hlusta á málflutning fulltrúanna.

Það kom enginn.  Alls enginn.

Umræðan var hins vegar ágæt og sveitarstjórnarmenn sammála um að vísa málinu til byggðaráðs til frekari skoðunar. 

Vonandi verða menn sammála að lokum um að stilla álögum í hóf.


Rígmontinn pabbi

Í gær var ég viðstaddur stóru upplestrarkeppnina á Varmalandi.  Þar komu fulltrúar fimm skóla á Vesturlandi og lásu texta og ljóð fyrir áheyrendur og dómara. 

Krakkarnir voru yndisleg og lásu hvert öðru betur.  Þau höfðu sýnilega lagt mikla vinnu í undirbúning og leikrænir tilburðir þeirra glöddu alla viðstadda.

Eins og í flestum keppnum stendur einn uppi sem sigurvegari og í þetta sinn var það dóttir mín Klara sem þótti skara fram úr.  Það var rígmotninn pabbi sem sat úti í sal þegar úrslit voru tilkynnt. 

Ég var alveg sammála dómnefndinni, en kannski ekki hlutlaus.

Lífið er ekki alltaf vonbrigði.

Klara og tvistur 1


Ingunn í frí

Á fundi sveitarstjórnar í gær var lagt fram bréf frá Ingunni Alexandersdóttur þriðja manni sjálfstæðisflokksins þar sem hún óskar eftir leyfi frá störfum í sveitarstjórn til 1. september nk.  Engin ástæða var gefin upp í bréfinu en leiða má að því líkur að húsbygging og búferlaflutningar og uppbygging nýs leikskóla spili þar inn í.

Ég mun sakna Ingunnar þennan tíma.  Ingunn sýndi snarpa spretti í kosningabaráttunni og hélt m.a. úti heimasíðu þar sem hún skammaði andstæðinga sína, sérstaklega mig.  Hvort sem skammirnar áttu rétt á sér, kann ég alltaf að meta það þegar gagnrýni er sett fram opinberlega þannig að hægt er að svara þeim.  Miklu verri eru þeir sem læðast með veggjum og dreifa óhróðri í skjóli nafnleyndar.  Þeir eru smámenni.


Af bílaþvottaplani

Undanfarin ár hefur ekki verið almenn aðstaða til að skola af bílum í Borgarnesi.  Olíufélög hafa gjarnan boðið upp á þessa aðstöðu í tengslum við sína þjónustu en engu slíku hefur verið til að dreifa í Borgarnesi, þrátt fyrir töluverðan þrýsting almennings.

Á fundi umhverfisnefndar nú nýlega lagði Jenný Lind Egilsdóttir fulltrúi Framsóknarmanna fram tillögu um að leitað verði samstarfs við Orkuveitu Reykjavíkur um að koma upp bílaþvottaplani í Brákarey í tengslum við hreinsistöð sem það á að rísa.  Fín tillaga og þörf.

Á sveitarstjórnarfundi í gær kom síðan fram tillaga frá Sigríði Björk Jónsdóttur fulltrúa Borgarlistans um að umhverfisfulltrúa sveitarfélagsins yrði falið að skrifa olíufélögunum og kanna áhuga þeirra á að veita þessa þjónustu.  Sú tillaga er auðvitað skilgetið afkvæmi tillögu Jennýjar.

Gott hjá þér Jenný.  Haltu bara áfram að fá góðar hugmyndir því þó meirihlutinn geri sitt til að eigna sér þær þá er alltaf gott að vita hvaðan þær komu í upphafi.


Jafnrétti og baráttudagur kvenna

Á sveitarstjórnarfundi Borgarbyggðar í gær var aðeins fjallað um jafnréttismál og hver staða kynjanna er í nefndum og ráðum.  Á baráttudegi kvenna hefði nú verið gaman að vinna með skemmtilegri tölur en þar voru birtar.  Við eigum alltof langt í land til að ná jafnrétti og var þessi samantekt þörf áminning um að gera betur.

Kannski þess vegna var heldur leiðinlegt að á þessum sama fundi þurfti sjálfstæðisflokkurinn að skipta um tvo aðalfulltrúa í nefndum, bæði umhverfisnefnd og í húsnefnd Þinghamars.  Og á baráttudegi kvenna var tveimur konum skipt út fyrir karla. 

Lífið er stundum ekkert nema tóm vonbrigði.


Sparisjóður Mýrasýslu

Í gær birti SPM reikninga sína fyrir liðið ár.  Ég má til með að óska þeim sparisjóðsmönnum og okkur öllum til hamingju með þennan góða árangur.

Hagnaður upp á nærri einnoghálfan milljarð eru engir smáaurar.  Til samanburðar má nefna að heildartekjur Borgarbyggðar eru áætlaðar um tveir milljarðar á næsta ári.

Við skulum ekki gleyma því að SPM er alfarið í eign sveitarfélagsins og hefur oft tekið á með samfélaginu í góðum málum.  Geta hans til slíks hefur trúlega aldrei verið meiri.  Sameiginlega verða sveitarstjórn, stjórn SPM og fulltrúaráð að fara yfir með hvaða hætti það má verða. 

Segi ég þetta vegna þess að ég ætla að "þjóðnýta" hagnað SPM?

Nei það geri ég ekki en það vekur óneitanlega athygli að eftir þetta góða ár leggur stjórnin til að eigandanum, sveitarfélaginu Borgarbyggð, verði greiddar heilar þrjármilljónirogeitthundraðþúsund í arð.  Merkilega lítið en....  Reglur um arðgreiðslur miðast við stofnfé.

Lífið er oft svo einkennilega skrítið.

Kveðja Sveinbjörn


Háhraðanettengingar í sveitarfélaginu

Á síðasta kjörtímabili gerðu Borgarfjarðarsveit, Borgarbyggð, Hvítársíðuhreppur og Skorradalshreppur samkomulag við fyrirtækið Emax um nettengingu svæðisins.  Þetta var tímamóta samningur og vel til þess fallinn að bæta búsetuskilyrðin á svæðinu.  Upphafið lofaði góðu en efndir hafa ekki verið sem skyldi.  Þjónustan hefur ekki verið nógu góð og sambandið legið niðri.  Því verður að breyta og þess er krafist af okkar hálfu.

Nýlega var undirritaður samningur við Hringiðuna um háhraðanet á sunnanverðu Snæfellsnesi, þar á meðal í hinum forna Kolbeinsstaðahreppi.  Gangi sá samningur eftir verður þeim málum vel fyrir komið á því svæði.

Eftir stendur að við verðum að vinna betur að háhraðatengingum á öðrum dreifbýlissvæðum sveitarfélagsins.  Nútíminn krefst þess.  Flokkarnir lofuðu því!  Tækifærin eru fyrir hendi.

Þar verður sveitarfélagið að leiða vinnuna og gæta þess að sú vinna nýtist öllum notendum, ekki bara sumum. 

 


Þögnin rofin

Tel að þögnin sé orðin nógu löng og nú sé rétt að leggja af stað að nýju.  Af ýmsu er að taka, ekki síst í sveitarstjórnarmálunum og vonandi gefa þau innblástur. 

Ég hef ekki farið í felur með það að úrslit kosninganna síðastliðið vor urðu mér mikil vonbrigði og þá ekki síður að það fór eins og spáð var að Borgarlistinn og sjálfstæðismenn höfðu engan áhuga á að ræða við okkur Framsóknarmenn um samstarf.  Þeir höfðu löngu ákveðið að vinna saman þó þeir segðust ganga óbundnir til kosninga.  Hlutskipti mitt er því að vera í minnihluta og þó ég hafi valið þann kost að berja ekki bumbur á torgum þá reyni ég að veita aðhald sem oft hefur tekist bara vel og þeir hafa tekið tillit til skoðanna okkar Framsóknarmanna.  Því ber að fagna.

 Oft verður maður þó súr þegar í ljós kemur að framganga mála er ákveðin fyrirfram en slíkt er hlutskipti okkar minnihluta manna.

En það er alltaf von og meðan svo er töltir maður áfram og reynir að koma góðum málum til skila.

Kveðja úr sveitinni, Sveinbjörn


Ánægjulegur dagur

Sæl öll.

Við Framsóknarmenn höfum átt ágætan dag.  Við hófum daginn á Hvanneyri en fluttum okkur niður í Borgarnes um hádegi.  Við fórum í mörg fyrirtæki, stór og smá og áttum ágætar stundir með íbúum.

Seinni partinn hélt Klara mín upp á afmælið sitt, þó sjálfur afmælisdagurinn sé löngu liðinn.

Rúmlega kvöldmat gengum við frambjóðendur um nokkrar götur í Brgarnesi og spjölluðum við kjósendur um heima og geima.  Hér með þakka ég góðar móttökur sem við fengum hvarvetna.

Þá var mikið umleikis á skrifstofunni og fjöldi af fólki sem leit við til að gefa góð ráð eða hjálpa til við hin mörgu störf sem falla til í baráttunni.

Nú er bara sjálfur kosningadagurinn eftir og svo vonandi spennandi kosninganótt.  Sú síðasta í Borgarnesi var bísna spennandi og gaman væri nú að þessi yrði það líka.

Minni á góðan morgunmat á skrifstofunni í fyrramálið og svo kaffi allan daginn.

Kveðja Sveinbjörn


Nú varð mér á!!

Sæl öllsömul.

Nú er þessari baráttu að ljúka og ekkert eftir nema kjördagurinn sjálfur.  Margt sem ég hef sagt í þessari baráttu hefur verið misskilið og reynt að snúa því gegn mér.  Yfir það hef ég farið fyrr í blogginu.

Enn hefur þetta gerst og þá á þann hátt að ég hef sært ágætt fólk og það finnst mér leitt og vil leiðrétta það og biðjast afsökunar.

Á mörgum fundum hef ég verið spurður um Pál bæjarstjóra og hvort hann væri mitt bæjarstjóraefni.  Ég hef svarað því heiðarlega eins og öðrum spurningum sem ég hef fengið og sagt að hann væri það ekki ef við Framsóknarmenn lentum í þeirri ánægjulegu stöðu að fá hreinan meirihluta.   Fram skal tekið enn einu sinni að öll mín kynni af Páli eru mjög góð og allt okkar samstarf með ágætum. 

Sumir hafa viljað túlka orð mín þannig að Páll kæmi bara alls ekki til greina sem bæjarstjóri ef við Framsóknarmenn ættum aðild að meirihluta.  Ég kannast ekki við að hafa fullyrt það.

Þessi umræða hefur hins vegar orðið okkur Framsóknarmönnum erfið því Páll nýtur virðingar.

Mér varð hinsvegar á í morgun þegar ég var að gantast með þetta mál á vinnustaðafundi.  Þá sagði ég brandara, hafðan eftir Skagfirðingi að þeim í Skagafirði þætti einkennilegt að við værum að rífast um Pál því það væri löngu ákveðið að hann kæmi norður í vor og yrði sveitarstjóri í Skagafirði.  Hann hefði bara verið í verknámi hjá okkur í eitt kjörtímabil.

Einhver skildi ekki brandarann og tók þetta full alvarlega og sagði frá þessu eins og staðreynd.  Þetta finnst mér mjög leiðinlegt og harma að hafa komið þessari sögu af stað.   Allir sjá þó að þetta getur ekki verið með þessum hætti því kosningum er ekki lokið, hvorki í Skagafirði eða annarsstaðar og því enginn kominn með umboð til að ráða eða reka bæjarstjóra eða sveitarstjóra.

Ég endurtek að mér finnst slæmt hvernig þetta var misskilið og harma það. 

 Kveðja, Sveinbjörn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband