Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
25.5.2006 | 23:54
Frábær hátíð í Skallagrímsgarði.
Kæru vinir.
Við Framsóknarmenn áttum aldeilis frábæran dag í Skallagrímsgarði. Við boðuðum til hátíðar og fjölmargir þekktust boðið. Þar var grillað, farið í leiki, sungið og spjallað. Mjög góður andi sveif yfir vötnum og við Framsóknarmenn þökkum öllum gestum okkar fyrir skemmtilega stund.
Það var sérlega skemmtilegt að fá heimsókn frá slökkviliðinu í Borgarnesi. Þeir höfðu verið að slást við sinuelda á Grímsstöðum og ákváðu að koma til okkar og gleðjast og þá ekki síður til að sýna og sannfæra okkur um að það væri mjög góður mórall og mikill áhugi í slökkviliðinu. Mjög gott framtak hjá þeim enda vita þeir sem er að hjá okkur finna þeir vini sína.
Nú fer að líða að lokum þessarar kosningabaráttu og því fannst okkur vænt um að finna þann mikla velvilja og hlýhug sem gestir okkar sýndu í dag. Það eykur baráttuþrekið sem þó var töluvert fyrir.
Nú er bara að nýta tímann vel því enn má finna fleiri liðsmenn.
Kveðja frá Hvanneyri, Sveinbjörn
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2006 | 01:10
Ritskoðun?
Sæl öll.
Þegar ég blogga þá gæti ég mín á því að setja ekki þar inn annað en ég er tilbúinn að verja og að mér finnist það innan velsæmismarka. Eins og ég hef áður sagt getur hún tekið á þessi pólitíska fegurðarsamkeppni en hver er sinnar gæfu smiður.
Ónefndur bloggari sjálfstæðismanna, sem ég nefndi í pistli um að vera sjálfum sér samkvæmur, hefur e.t.v. ekki haft ofangreint í huga þegar hann skrifaði ótrúlega grein um uppháhalds sveitarstjóraefni Framsóknarmanna. Reyndar er þetta sveitarstjóraefni okkar Framsóknarmanna búið til af sjálfstæðismönnum, trúlega til að koma illa við okkur, hvernig sem á því stendur.
En nú hefur það gerst að pistillinn um sveitarstjóraefnið er horfinn af bloggsíðunni. Kann það virkilega að vera að sjálfstæðismaðurinn hafi skammast sín og séð að sér, eða var hér á ferðinni venjuleg ritskoðun af hálfu forystunnar?
Spyr sá sem ekki veit.
Kveðja, Sveinbjörn
24.5.2006 | 13:23
Blómstrandi menning
Góðan daginn félagar og vinir.
Ég hef oft vitnað til þess á fundum, sérstaklega á vegum Sambands Íslenskra Sveitarfélaga, hversu menning blómstrar hér í Borgarfirði. Reykvíkingar hafa löngum talið að nafli alheimsins sé einmitt staðsettur þar en ég hef hins vegar bent þeim á að það sé mikill misskilningur.
Í Borgarfjarðarsveit búa um 700 manns, eða álíka og í meðalstórri blokk í Breiðholtinu. Ég hef beðið þá að nefna mér þá blokk þar sem starfa af krafti þrjú ungmennafélög sem hafa metnað til að setja upp leiksýningar með reglulegu millibili, halda uppi íþróttastarfi og koma veglega að hagsmunamálum íbúa. Ég hef líka beðið þá að bera saman útgáfu á menningarefni eins og hljómdiskum. Eiga þeir sinn Bjartmar á Norður-Reykjum, Snorra á Fossum, Bjarna á Hvanneyri, kirkjukór Reykholts- og Hvanneyrarkirkna, Söngbræður og Freyjukór. Allir þessir aðilar hafa gefið út diska á undanförnu og eflaust gleymi ég einhverjum.
Þessa gleði og þetta áræði þarf að vernda. Þá er svo miklu skemmtilegra að vera til.
Það sem kveitki í mér að setja þetta á blog var að í gærkveldi heyrði ég nýjan disk Freyjukórsins. Ég hvet ykkur vinir og félagar til að eignast hann, ásamt öllum hinum diskunum sem ég nefndi. "Tökum þátt í menningunni, annars verður hún ekki til", sagði góður maður eitt sinn. Förum að hans ráðum.
Kveðja frá Hvanneyri, Sveinbjörn
24.5.2006 | 01:10
Að vera sjálfum sér samkvæmur
Sælir félagar og vinir.
Ónefndur bloggari af lista sjálfstæðismanna gerir mér og okkur Framsóknarmönnum þann heiður að fjalla um okkur , málflutning okkar og trúverðugleika á síðu sinni.
Nú kann það að vera að menn hafi misjafna skoðun á okkur Framsóknarmönnum en ég leyfi mér að gera þá kröfu til þessa bloggara að hann haldi sig við eina skoðun en ekki tvær. Það lýsir ekki mikilli staðfestu að skipta svona ört um skoðun, jafnvel þó um sjálfstæðismann sé að ræða.
Í fyrri pistili standa þessi orð og þá er átt við okkur Framsóknarmenn. "Ég er líka alveg viss um að þeir standa við það miðað við hvernig þeir hafa talað."
Í seinni pistlinum sem skrifaður er sama daginn stendur. "Oddviti Framsóknarmanna hefur reyndar þrætt fyrir að svo sé en hverju á maður að trúa eftir að hafa hlustað á málflutning hans þar sem sagt var í gær skiptir engu á morgun."
Kann að vera að tilgangurinn helgi meðalið?
Kveðja, Sveinbjörn
24.5.2006 | 00:54
Fundur í Borgarnesi
Sælir netverjar.
Fundir okkar frambjóðenda undanfarna daga hafa verið hver með sínu sniði. Fundurinn í Borgarnesi var þeirra fjölmennastur en í raun sá daufasti. Spurningar úr sal voru heldur fáar en flestar þeirra lutu að skipulags og framkvæmdamálum í Borgarnesi.
Ég verð að segja að ég bæði dáðist að og vorkenndi um leið, oddvitum sjálfstæðisflokks og Borgarlista. Þegar þeir svöruðu fyrir framkvæmdaleysi í gatnagerð og göngustígum þá dáðist ég að þeim að hafa vit á að játa á sig alla sök og biðja afsöknunar á sviknum kosningaloforðum fyrri ára en vorkenndi þeim í leiðinni að koma sér í þessa stöðu.
Augljóst er að það þarf að taka til hendinni í Borgarnesi en kann ekki að vera kominn tími til að það verði aðrar hendur en þær sem þannig hafa staðið að verki síðustu fjögur ár?
Ég bara svona spyr.
Kveðja úr kyrrðinni á Hvanneyri, Sveinbjörn
24.5.2006 | 00:34
Blóð er þykkara en vatn
Kæru félagar og vinir.
Á sama tíma og frambjóðendur lýstu ágæti sínu á fundi í Borgarnesi lá elsta dóttir mín á sæng. Á sömu stundu og ég lýsti í lokaorðum framtíðarsýn Framsóknarmanna í sveitarfélaginu okkar allra þá fæddi hún dóttur sem nefnd hefur verið Hulda.
Ég velti því fyrir mér svona í amstri þessara ströngu daga hvað er í raun sem gefur lífinu gildi. ER það ekki að fylgjast með fólkinu sínu, hvernig það stígur fyrstu skrefin og hvernig það fótar sig í lífinu. Það að sjá líf kvikna, hvernig það er umvafið hlýju sinna nánustu og hvernig megi létta því lífið. Er það ekki í raun það sem lífið snýst um og annað er sem hjóm hjá því.
Þannig er tilfinningin í brjósti mínu þessa stundina þegar ég er ný kominn heim eftir að hafa litið rósina og vaggað henni í svefn í örmum mínum. Þá sannfærist maður enn einu sinni um að blóð er þykkara en vatn.
Kveðja Sveinbjörn