Stofnun menntaskóla í Borgrfirði

Kæru vinir.

Í dag 4. maí verður hátíðardagur í Borgarfirði. Þá verður verður stofnað ehf Menntaskóli Borgarfjarðar, undirrituð viljayfirlýsing um starfsemina og fyrsta skóflustunga tekin. Reiknað er með að starfsemin geti hafist haustið 2007 og þá komi fyrstu nemar til náms við skólann.

Menntaskóli Borgarfjarðar verður einkaskóli, sem er kannski ekki það sem allir vildu, en nú er ekkert annað að gera en vinna vel að stofnun hans og vexti. Ekki er spurning að skólinn bætir lífskjör í Borgarfirði og gleðilegt er til að hugsa að yngri dætur mínar tvær geti sótt framhaldsskóla án þess að flytja burt.

Þegar hugsað er til baka þá er ekki ýkja langt síðan að það störfuðu fimm framhaldsskólar í Borgarfirði. Nú stendur Landbúnaðarháskólinn svolítið einn eftir með sína ágætu bændadeild og ekki má gleyma frumgreinadeildinni á Bifröst. Aðrir hafa dáið drottni sínum, eins og svo margir aðrir framhaldsskólar á landsbyggðinni.

Þegar litið er til þess að svæðið bar fimm framahldsskóla þá ætti okkur ekki að verða skotaskuld úr því að reka einn með sæmilegri reisn. En það er undir okkur komið og því verðum við að styðja starfið með ráð og dáð. Það er m.a. hægt með því að leggja stofnfé til skólans og þar er engin upphæð of lítil því margt smátt gerir eitt stórt.

Hlutverk sveitafélagsins verður stórt við að tryggja gengi skólans á næstu árum. Þar má nefna nauðsyn þess að styðja við félagsstarf í skólanum því það verður eðlilega að byggja frá grunni. Hver kannast ekki við að fólk hafi valið hinn eða þennan framhaldsskóla vegna félagslífsins. Við búum ekki að þeirri sögu en við eigum að búa hana til og gera glæsilega. Við getum líka byggt við íþróttaaðstöðuna í Borgarnesi og það munum við gera.

Ótalmargt má nefna í þessu samhengi en nú skulum við njóta stundarinnar og gleðjast um leið og við gerum öll okkar til að tryggja framtíð skólans.

Góð kveðja Sveinbjörn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband