14.5.2006 | 11:21
Landnámsetur í Borgarnesi
Sæl öll.
Ég var viðstaddur opnun Landnámsseturs í Borgarnesi í gær ásamt fjölmenni. Fyllsta ástæða er til að óska Sigríði Margréti Guðmundsdóttur, Kjartani Ragnarsyni og okkur öllum til hamingju með þennan stað. Með nútímatækni er sagan gerð ljóslifandi og ég átti auðvelt með að lifa mig inn í landtöku landnámsmanna, þegar ég stóð í stafni knerris sem hreyfðist eftir sjólagi. Þá er texti sem Hallmar Sigurðsson les fyrir sýningargesti skýr og lifandi. Virkilega flott.
Landnámssetur mun án efa verða eftirsóttur staður af ferðamönnum, bæði innlendum og útlendum og auka straum ferðamanna um Borgarfjörð. Staðurinn bíður upp á svo margt. þar er sýning, leiksýning og veitingastaður, upplagður staður fyrir hópa að stoppa á og njóta stundarinnar. Enda leið ekki langt fram á daginn þar til fyrsti hópurinn var kominn. Hér er sýnilega ekki legið á liði sínu.
Hér er kærkomin viðbót við menningar- og ferðaþjónustuflóru Borgarfjarðar. Ég skora á sem flesta að skoða staðinn og drífa þangað gesti sína, þeir verða ekki fyrir vonbrigðum.
Kveðja úr sólinni á Hvanneyri, Sveinbjörn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2006 | 08:59
Opnun kosningaskrifstofu
Sæl öll.
Framsóknamenn opnuðu kosningaskrifstofu í Félagsbæ á miðvikudagskvöldið. Mæting var góðog þar áttum við aldeilis ágæta stund.
Umboðsmenn listans þeir Kristján Axelsson í Bakkakoti og Sveinn Hallgrímsson á Vatnshömrum stjórnuðu samkomunni og fórst það af skörungsskap. Framsóknarmenn hafa reynslu af því að mikið getur mætt á umboðsmönnum og því rétt að hafa þá trausta.
Gestir fundarins þeir Guðni Ágústsson og Magnús Stefánsson fluttu ávörp og hvöttu menn til dáða og frambjóðendur stigu á stokk og strengdu heit fyrir komandi baráttu. Gaman var að sjá reynda bolta eins og Finnboga í Hítárdal og Kolfinnu í Norðtungu í bland við yngra fólkið á listanum. Ég er sannfærður um að það hefur tekist vel til við val á þessum lista og fólk verður ekki fyrir vonbrigðum með starfs þessa fólks.
Eftir stutt ávörp nutum við kaffiveitinga í bland við harmonikku og gítarspil og svo var spjallað frameftir kvöldi þar sem hver hernaðaráætlunin á fætur annarri varð til.
Bjarni Valtýr er aldrei langt undan þar sem Framsóknarmenn hittast. Hann kom til mín í lokin og rétti mér miða. Á þessum miða stóð:
Lýðinn seður sigurvon
sælum meður ráðum.
Áfram kveður Eyjólfsson
Eitthvað skeður bráðum
Kærar þakkir Bjarni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2006 | 08:44
Skemmtilegur dagur
Sælir sveitungar.
Við Framsóknarmenn áttum ágætan miðvikudag. Þá heimsóttum við fyrirtæki, stofnanir og hestamenn í Borgarnesi auk þess sem við opnuðum kosningaskrifstofu. Með okkur í för voru Gunði Ágústsson varaformaður flokksins og landbúnaðarráðherra og Magnús Stefánsson alþingismaður og formaður fjárlaganefndar.
Það er alltaf gaman að hitta Konráð í Loftorku sem ávallt er á vaktinni í sínu fyrirtæki. Hann rölti með okkur, sýndi okkur starfsemina og sagði frá því sem helst er á baugi. Samtöl við starfsmenn voru skemmtileg en þau gengu ekki alltaf auðveldlega fyrir sig því í Loftorku má mjög greinilega finna þá spennu sem er á vinnumarkaði því þriðjungur starfsmanna eru útlendingar.
Í viðtölum við Konráð kom m.a. fram að árið 1995 voru starfsmenn Loftorku um 30, nú eru þeir rétt að slá í 200. Skemmtilegt að skoða þessar tölur í ljósi þess að þennan tíma hefur Framsóknarflokkurinn verið í ríkisstjórn og farið með atvinnumálin.
Arnar Sigurðsson forstöðumaður sölusviðs sýndi okkur Vírnet og sagði frá starfsemi. Vírnet hefur vaxið skemmtilega á síðustu árum ekki síst fyrir samruna eða kaup á öðrum fyrirtækjum. Mjög gaman var að koma í fyrirtækið og hitta starfsmenn þess.
Við heimsóttum nýjar bæjarskrifstofur undir leiðsögn Páls bæjarstjóra og drukkum kaffi með starfsmönnum. Í samtölum við þá kom fram að það mun ekki síst mæða á starfsmönnum hins nýja sveitarfélags fyrst eftir sameiningu til að við getum byggt upp hér betra samfélag. Starfsmennirnir taka hlutverk sitt alvarlega og einmitt þegar við komum var hluti þeirra í þjálfun við vinnslu í nýju bókhaldskerfi.
Þá renndum við í hesthúsahverfi Skuggamanna og hittum þar stjórn Halldór Sigurðsson fomann ásamt fleiri stjórnarmönnum og Kristján Gíslason skólastjóra sem hefur farið fyrir í undirbúningsvinnu vegna byggingar reiðhallar í Borgarnesi. Guðni hét því að hann myndi styrkja bygginguna og hvatti menn til dáða. Dóri tók vel á móti okkur með kaffi og rjúkandi vöfflum með alvöru rjóma. Kærar þakkir Guðrún.
Við röltum aðeins um hverfið og hittum hestamenn á útreiðum og við hirðingu. Mátti vel greina að sumir þeirra eru komnir hálfa leið á landsmót. Gott að vita að það er hugur í Skuggamönnum. Þá ræddu þeir reiðleiðir og reiðvegi í nágrenni hverfisins og ljóst að þar má gera betur.
Þetta var góður dagur og þakka ég öllum sem tóku á móti okkur og gáfu okkur hluta af sínum dýrmæta tíma.
Kveðja, Sveinbjörn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2006 | 10:39
Kosingabarátta.
Sæl öllsömul.
Alla jafna eru öll dýrin í hinum pólitíska skógi vinir. Það er reynsla mín að það sé gott að vinna með flestum þeim sem gefa sig að sveitarstjórnarstörfum og í raun eiga allir heiður skilinn sem vilja taka þátt í þessum vanþakklátu störfum.
En á fjögurra ára fresti gerist eitthvað! Þá fara menn að brýna klærnar og af stað fer einhver óskilgreind "fegurðarsamkeppni". Menn standa á torgum og dásama sjálfan sig og sína stefnu en vilja ekkert kannast við það ágæta fólk sem það hefur átt gott samstarf við undanfarin ár.
Þetta er sérkennilegt - en samt nauðsynlegt. Kjósendur eiga auðvitað rétt á að vita fyrir hvaða áherslur menn og flokkar standa til að geta valið þá fulltrúa sem stjórna sveitarfélaginu næstu fjögur árin.
Og kjósendur verða að muna lengur en fram að kjördegi hverju var lofað til að geta borið saman við verkin. Þar er oft himinn og haf á milli.
Í okkar ágæta nýja sveitarfélagi stendur valið milli þriggja framboða. Það er sérkennileg staða að áður en stefnuskrá framboðanna var lögð fram virðast fulltrúar Borgarlistans og Sjálfstæðisflokks hafa ákveðið að starfa saman, líkt og þeir hafa gert í bæjarstjórn Borgarbyggðar undanfarin fjögur ár.
Er þetta bara hægt?
Hvernig er hægt að hafna samstarfi við okkur Framsóknarmenn án umræðu og án málefnalegs ágreinings? Hvar er lýðræðið í þeim vinnubrögðum?
Ég hef átt ágætt samstarf við þetta fólk t.d. í sameiningarvinnu fyrir sveitarfélögin sem ég stýrði með þeim árangri að nú verða fjögur sveitarfélög að einu. Ég varð hvergi var við þá hnökra í þeirri vinnu að það ætti að fæla frá samstarfi við okkur Framsóknarmenn. Þvert á móti. Þess vegna eru þessar kveðjur til okkar sérkennilegar og Borgarlistinn og Sjálfstæðismenn skulda kjósendum skýringar.
Eina raunhæfa svar okkar Framsóknarmanna er því að stefna að góðum sigri í kosningum hér í vor þannig að við fáum meirihluta í sveitarstjórn. Einhverjum kann að þykja það óraunhæft en þegar grannt er skoðað er það ekki fjarlægur möguleiki.
Þá munum við upplifa skemmtilega þróun í bland við nauðsynlegar breytingar.
Kveðja frá Hvanneyri, Sveinbjörn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.5.2006 | 10:17
Byggjum betra samfélag
Sælir ágætu sveitungar.
Hjálögð er grein sem send var okkar ágæta blaði Skessuhorni til birtingar.
Miklar breytingar verða í sveitarstjórnarmálum í Borgarfirði, á Mýrum og í Kolbeinsstaðahreppi þegar þessi sveitarfélög sameinast nú í vor. Í fyrsta skipti gerist það að sveitarfélög eru sameinuð yfir þrjár sýslur og þó þessi sveitarfélög myndi heildstætt atvinnu og þjónustusvæði þá er margt ólíkt með þeim. Þess vegna leggja Framsóknarmenn mikla áherslu á það að strax frá upphafi verði menn meðvitaðir um ólíka uppbyggingu og stjórnsýslan taki mið af þessum mun. Það verður að tryggja að okkar ágæta samfélag finni sig í einni heild frekar en að hlutar þess upplifi sig sem afgangsstærð. Vinni menn markvisst út frá þessari stefnu strax frá upphafi eru allar líkur á að þetta takist. Framsóknarmenn eru nú að kynna áherslur sínar fyrir kosningar í vor. Skilvirk og opin stjórnsýsla er þar ofarlega í áhersluröð ásamt því að byggja upp fjölskylduvænt samfélag þar sem fólki finnst gott að búa. Við stefnum að leikskólarýmum fyrir öll okkar börn frá 18 mánaða aldri og við ætlum að standa vörð um grunnskólastarfið eins og það er rekið nú. Við vitum að þar er unnið gott starf og þó auðveldlega megi sýna fram á hagræðingu í skólastarfi þá miðast allir þeir útreikningar við stöðu dagsins í dag en taka ekki tillit til þeirrar þróunar sem er á svæðinu. Hún mun ráða miklu meiru um framhaldið en stundarhagsmunir.Frambjóðendur Framsóknarflokksins fagna skoðanaskiptum við kjósendur og óska eftir að þeir hafi samband þannig að hægt verði að ræða áherslur og framtíðarsýn. Sjálfur hef ég verið að setja hugrenningar mínar á blað á blogsíðu minni sveinbjorne.blog.is og hvet ég ykkur til að lesa þær. Þar má einnig leggja fram spurningar og skal ég svara þeim eins og kostur er.Framsóknarmenn eru tilbúnir að takast á við framtíðina. Við leggjum fram skýrar áherslur og við trúum að með þeim takist okkur saman að byggja upp betra samfélag.Kveðja til ykkar allra, Sveinbjörn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2006 | 17:29
Málefnaskrá Sjálfstæðisflokksins
Ágætu vinir.
Sjálfstæðismenn hafa sent út stefnuskrá sína fyrir komandi kosningar. Ég var að glugga í hana í hádeginu og verð að segja að mér líst bara þokkalega á. Úr þessari stefnuskrá má lesa ágætan metnað fyrir hönd nýs sveitarfélags og framtíðarsýnin er bara ágæt.
En...hvar voru þessi metnaðarfullu áhersluatriði í Borgarbyggð þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið ríkjum, á því kjörtímabili sem nú er að ljúka? Hvar voru skipulagsmálin? Ferlimál fatlaðra? Lóðamálin á kostnaðarverði? Leikskólapláss fyrir tveggja ára börn? Fréttir af stjórn bæjarins?, svo einhver atriði séu nefnd.
En ég hlýt auðvitað að fagna því að Sjálfstæðismenn ætli að taka sig á og ef þeir meina eitthvað með því, óska ég þeim bara til hamingju.
Kveðja úr sólinni, Sveinbjörn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2006 | 09:18
Gæsilegt stjórnsýsluhús í Borgarnesi
Góðan daginn sveitungar.
Ég átti ánægjulega stund með mörgum sveitungum á laugardaginn síðasta þegar vígt var nýtt stjórnsýsluhús í Borgarnesi. Ljóst er að með hini nýju aðstöðu verður mun rýmra um alla starfsemi og ekki síst má taka vel á móti þeim sem erindi eiga við stjórnsýsluna. Ný og/eða bætt aðstaða verður fólki hvatning til enn betri verka og ég trúi því að það gerist í okkar nýja húsi.
Samhliða vígslu var opnuð ljósmyndasýning úr safni athafnamannsins Sigvalda Arasonar sem hefur komið að flestum stærstu verkefnum í Borgarnesi undanfarin 50 ár. Ég hvet sem flesta til að skoða þessa sýningu því hún gefur gott yfirlit yfir hvað hefur breyst í Borgarnesi undanfarna áratugi.
Þá afhentu börn Halldórs E. Sigurðssonar fyrrum ráðherra og alþingismanns og umfram allt fyrsta sveitarstjóra í Borgarnesi málverk af föður sínum. Málverkinu hefur verið valinn staður í móttöku hússins. Á það vel við að Halldór vaki yfir þeim sem þar koma og þeim sem þar vinna. Þannig var Halldór alla tíð, vakinn og sofinn yfir velferð Borgnesinga.
Þegar ég dvaldi í húsinu og lét mig dreyma undir seiðandi tónlist frá Gunnari Ringsted og félaga hans þá gerði ég mér grein fyrir að því fylgir mikil ábyrgð að stjórna nýju sveitarfélagi. Þá ábyrgð er ég tilbúinn að axla og vona að Framsóknarflokkurinn fái til þess nægan stuðning
Kveðja Sveinbjörn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2006 | 09:04
Þjónusta og fleira fólk!
Nú líður að því að til verði nýtt sveitarfélag hér í Borgarfirði þegar Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppur og Kolbeinsstaðahreppur sameinast. Sveitarfélagið hefur alla burði til að verða sterkt og þjónusta íbúa sína vel, svo vel að íbúum muni fjölga. Gerist það munu ný fyrirtæki líta til þess að byggja hér upp framtíð sína. Þetta höfum við séð gerast á öðrum stöðum á landinu og þetta eigum við að láta gerast hér. Til þess að þetta takist þarf ný sveitarstjórn að vera meðvituð um að hér er verið að sameina ólík samfélög en það þarf að gæta þess vel að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Um leið og við eigum að varðveita fjölbreytileikann og njóta góðs af honum s.s. sterkum þéttbýliskjarna og blómlegum sveitum og háskólaþorpum þá þarf öll þjónusta að taka mið af þessum fjölbreytileika. Hún á ekki að vera misjöfn heldur sambærileg. Reglur um þjónustu og aðstoð þurfa að vera skýrar en samt að taka mið af ólíku samfélagi. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja að hjörtu íbúanna slái í takt og þeir finni og heyri þann samhljóm sem hverju samfélagi er nauðsynlegur. Dæmi um misjafnt þjónustustig í hinu nýja sveitarfélagi er í leikskólamálum. Íbúar Borgarfjarðarsveitar eru vanir því að koma börnum sínum á leikskóla við 18 mánaða aldur og oft eru börnin yngri þegar þau koma á leikskóla. Þessu eru menn ekki vanir í Borgarbyggð þar sem því miður hefur þekkst biðlisti fyrir tveggja ára börn. Framsóknarmenn hafa metnað til að viðhalda þjónustustiginu eins og það er best. Því stefnum við ótrauðir á að tryggja leikskólarými fyrir öll börn, átján mánaða og eldri.
Kveðja Sveinbjörn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2006 | 08:31
Stofnun menntaskóla í Borgrfirði
Kæru vinir.
Í dag 4. maí verður hátíðardagur í Borgarfirði. Þá verður verður stofnað ehf Menntaskóli Borgarfjarðar, undirrituð viljayfirlýsing um starfsemina og fyrsta skóflustunga tekin. Reiknað er með að starfsemin geti hafist haustið 2007 og þá komi fyrstu nemar til náms við skólann.
Menntaskóli Borgarfjarðar verður einkaskóli, sem er kannski ekki það sem allir vildu, en nú er ekkert annað að gera en vinna vel að stofnun hans og vexti. Ekki er spurning að skólinn bætir lífskjör í Borgarfirði og gleðilegt er til að hugsa að yngri dætur mínar tvær geti sótt framhaldsskóla án þess að flytja burt.
Þegar hugsað er til baka þá er ekki ýkja langt síðan að það störfuðu fimm framhaldsskólar í Borgarfirði. Nú stendur Landbúnaðarháskólinn svolítið einn eftir með sína ágætu bændadeild og ekki má gleyma frumgreinadeildinni á Bifröst. Aðrir hafa dáið drottni sínum, eins og svo margir aðrir framhaldsskólar á landsbyggðinni.
Þegar litið er til þess að svæðið bar fimm framahldsskóla þá ætti okkur ekki að verða skotaskuld úr því að reka einn með sæmilegri reisn. En það er undir okkur komið og því verðum við að styðja starfið með ráð og dáð. Það er m.a. hægt með því að leggja stofnfé til skólans og þar er engin upphæð of lítil því margt smátt gerir eitt stórt.
Hlutverk sveitafélagsins verður stórt við að tryggja gengi skólans á næstu árum. Þar má nefna nauðsyn þess að styðja við félagsstarf í skólanum því það verður eðlilega að byggja frá grunni. Hver kannast ekki við að fólk hafi valið hinn eða þennan framhaldsskóla vegna félagslífsins. Við búum ekki að þeirri sögu en við eigum að búa hana til og gera glæsilega. Við getum líka byggt við íþróttaaðstöðuna í Borgarnesi og það munum við gera.
Ótalmargt má nefna í þessu samhengi en nú skulum við njóta stundarinnar og gleðjast um leið og við gerum öll okkar til að tryggja framtíð skólans.
Góð kveðja Sveinbjörn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2006 | 08:26
Velkomin á bloggið mitt.
Sæl öllsömul.
Meðan dætur mínar blogga rétt eins og drekka vatn skal það viðurkennt að í mér er kvíði. Þetta er samskiptamáti sem mér er framandi en um leið spennandi. Og nú er að duga eða drepast. Sveitarstjórnarkosningar sem framundan eru kalla á að hafa öll spjót úti og það skal reynt.
Takist mér þokkalega upp við tæknina þá mun ég halda hér úti reglulegum skrifum um störf, menn og málefni og skíra þannig hug minn til þeirra dægurmála sem hæst fara í umræðunni um leið og ég færi ykkur sýn mína til framtíðar.
Þá er bara að vona að einhver líti inn og lesi bloggið og láti sannfærast. þá er möguleiki að leggja fram spurningar t.d. á netfangið diddi@emax.is og þá skal ég svara.
Líði okkur svo öllum sem best, kveðja Sveinbjörn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)