25.5.2006 | 23:54
Frábær hátíð í Skallagrímsgarði.
Kæru vinir.
Við Framsóknarmenn áttum aldeilis frábæran dag í Skallagrímsgarði. Við boðuðum til hátíðar og fjölmargir þekktust boðið. Þar var grillað, farið í leiki, sungið og spjallað. Mjög góður andi sveif yfir vötnum og við Framsóknarmenn þökkum öllum gestum okkar fyrir skemmtilega stund.
Það var sérlega skemmtilegt að fá heimsókn frá slökkviliðinu í Borgarnesi. Þeir höfðu verið að slást við sinuelda á Grímsstöðum og ákváðu að koma til okkar og gleðjast og þá ekki síður til að sýna og sannfæra okkur um að það væri mjög góður mórall og mikill áhugi í slökkviliðinu. Mjög gott framtak hjá þeim enda vita þeir sem er að hjá okkur finna þeir vini sína.
Nú fer að líða að lokum þessarar kosningabaráttu og því fannst okkur vænt um að finna þann mikla velvilja og hlýhug sem gestir okkar sýndu í dag. Það eykur baráttuþrekið sem þó var töluvert fyrir.
Nú er bara að nýta tímann vel því enn má finna fleiri liðsmenn.
Kveðja frá Hvanneyri, Sveinbjörn
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2006 | 01:10
Ritskoðun?
Sæl öll.
Þegar ég blogga þá gæti ég mín á því að setja ekki þar inn annað en ég er tilbúinn að verja og að mér finnist það innan velsæmismarka. Eins og ég hef áður sagt getur hún tekið á þessi pólitíska fegurðarsamkeppni en hver er sinnar gæfu smiður.
Ónefndur bloggari sjálfstæðismanna, sem ég nefndi í pistli um að vera sjálfum sér samkvæmur, hefur e.t.v. ekki haft ofangreint í huga þegar hann skrifaði ótrúlega grein um uppháhalds sveitarstjóraefni Framsóknarmanna. Reyndar er þetta sveitarstjóraefni okkar Framsóknarmanna búið til af sjálfstæðismönnum, trúlega til að koma illa við okkur, hvernig sem á því stendur.
En nú hefur það gerst að pistillinn um sveitarstjóraefnið er horfinn af bloggsíðunni. Kann það virkilega að vera að sjálfstæðismaðurinn hafi skammast sín og séð að sér, eða var hér á ferðinni venjuleg ritskoðun af hálfu forystunnar?
Spyr sá sem ekki veit.
Kveðja, Sveinbjörn
24.5.2006 | 13:23
Blómstrandi menning
Góðan daginn félagar og vinir.
Ég hef oft vitnað til þess á fundum, sérstaklega á vegum Sambands Íslenskra Sveitarfélaga, hversu menning blómstrar hér í Borgarfirði. Reykvíkingar hafa löngum talið að nafli alheimsins sé einmitt staðsettur þar en ég hef hins vegar bent þeim á að það sé mikill misskilningur.
Í Borgarfjarðarsveit búa um 700 manns, eða álíka og í meðalstórri blokk í Breiðholtinu. Ég hef beðið þá að nefna mér þá blokk þar sem starfa af krafti þrjú ungmennafélög sem hafa metnað til að setja upp leiksýningar með reglulegu millibili, halda uppi íþróttastarfi og koma veglega að hagsmunamálum íbúa. Ég hef líka beðið þá að bera saman útgáfu á menningarefni eins og hljómdiskum. Eiga þeir sinn Bjartmar á Norður-Reykjum, Snorra á Fossum, Bjarna á Hvanneyri, kirkjukór Reykholts- og Hvanneyrarkirkna, Söngbræður og Freyjukór. Allir þessir aðilar hafa gefið út diska á undanförnu og eflaust gleymi ég einhverjum.
Þessa gleði og þetta áræði þarf að vernda. Þá er svo miklu skemmtilegra að vera til.
Það sem kveitki í mér að setja þetta á blog var að í gærkveldi heyrði ég nýjan disk Freyjukórsins. Ég hvet ykkur vinir og félagar til að eignast hann, ásamt öllum hinum diskunum sem ég nefndi. "Tökum þátt í menningunni, annars verður hún ekki til", sagði góður maður eitt sinn. Förum að hans ráðum.
Kveðja frá Hvanneyri, Sveinbjörn
24.5.2006 | 01:10
Að vera sjálfum sér samkvæmur
Sælir félagar og vinir.
Ónefndur bloggari af lista sjálfstæðismanna gerir mér og okkur Framsóknarmönnum þann heiður að fjalla um okkur , málflutning okkar og trúverðugleika á síðu sinni.
Nú kann það að vera að menn hafi misjafna skoðun á okkur Framsóknarmönnum en ég leyfi mér að gera þá kröfu til þessa bloggara að hann haldi sig við eina skoðun en ekki tvær. Það lýsir ekki mikilli staðfestu að skipta svona ört um skoðun, jafnvel þó um sjálfstæðismann sé að ræða.
Í fyrri pistili standa þessi orð og þá er átt við okkur Framsóknarmenn. "Ég er líka alveg viss um að þeir standa við það miðað við hvernig þeir hafa talað."
Í seinni pistlinum sem skrifaður er sama daginn stendur. "Oddviti Framsóknarmanna hefur reyndar þrætt fyrir að svo sé en hverju á maður að trúa eftir að hafa hlustað á málflutning hans þar sem sagt var í gær skiptir engu á morgun."
Kann að vera að tilgangurinn helgi meðalið?
Kveðja, Sveinbjörn
24.5.2006 | 00:54
Fundur í Borgarnesi
Sælir netverjar.
Fundir okkar frambjóðenda undanfarna daga hafa verið hver með sínu sniði. Fundurinn í Borgarnesi var þeirra fjölmennastur en í raun sá daufasti. Spurningar úr sal voru heldur fáar en flestar þeirra lutu að skipulags og framkvæmdamálum í Borgarnesi.
Ég verð að segja að ég bæði dáðist að og vorkenndi um leið, oddvitum sjálfstæðisflokks og Borgarlista. Þegar þeir svöruðu fyrir framkvæmdaleysi í gatnagerð og göngustígum þá dáðist ég að þeim að hafa vit á að játa á sig alla sök og biðja afsöknunar á sviknum kosningaloforðum fyrri ára en vorkenndi þeim í leiðinni að koma sér í þessa stöðu.
Augljóst er að það þarf að taka til hendinni í Borgarnesi en kann ekki að vera kominn tími til að það verði aðrar hendur en þær sem þannig hafa staðið að verki síðustu fjögur ár?
Ég bara svona spyr.
Kveðja úr kyrrðinni á Hvanneyri, Sveinbjörn
24.5.2006 | 00:34
Blóð er þykkara en vatn
Kæru félagar og vinir.
Á sama tíma og frambjóðendur lýstu ágæti sínu á fundi í Borgarnesi lá elsta dóttir mín á sæng. Á sömu stundu og ég lýsti í lokaorðum framtíðarsýn Framsóknarmanna í sveitarfélaginu okkar allra þá fæddi hún dóttur sem nefnd hefur verið Hulda.
Ég velti því fyrir mér svona í amstri þessara ströngu daga hvað er í raun sem gefur lífinu gildi. ER það ekki að fylgjast með fólkinu sínu, hvernig það stígur fyrstu skrefin og hvernig það fótar sig í lífinu. Það að sjá líf kvikna, hvernig það er umvafið hlýju sinna nánustu og hvernig megi létta því lífið. Er það ekki í raun það sem lífið snýst um og annað er sem hjóm hjá því.
Þannig er tilfinningin í brjósti mínu þessa stundina þegar ég er ný kominn heim eftir að hafa litið rósina og vaggað henni í svefn í örmum mínum. Þá sannfærist maður enn einu sinni um að blóð er þykkara en vatn.
Kveðja Sveinbjörn
19.5.2006 | 21:26
Hvað má?
Sæl öllsömul.
Eftir ágæta fundarlotu nú undanfarið þá hef ég velt ýmsu fyrir mér og í leið rifjað upp brot úr einum texta Jónasar Árnasonar hvar segir: "Það er meðal annars það sem ekki má".
Ég hef í raun aldrei verið í framboðsslag áður þó sumir haldi annað. Kannski þess vegna hefur það gleymst að afhenda mér bæklinginn " Þetta má ræða á framboðsfundum í Borgarfirði".
Ég hef leyft mér að ræða leikskólamál. Háskólaráð Viðskiptaháskólans á Bifröst sá ástæðu til að setja ofaní við mig vegna þess með sérstakri ályktun Þar segir í upphafi.
"Þar sem málefni leikskólans á Bifröst hafa verið dregin inn í kosningabaráttu vegna sveitarstjórnarkosninga í nýju sameinuðu sveitarfélagi í Borgarfirði sendir Háskólaráð frá sér svohljóðandi ályktun:"
Úpss, asni get ég verið. Ég gleymdi alveg að biðja þá á Bifröst um leyfi til að ræða þetta. Ég sem hélt að leikskólamál væri kannski það algengasta sem menn ræddu einmitt í kosningabaráttu. Nei, hér heitir þetta að draga málefni inn.... Verð víst að passa mig betur næst.
Á fundi í Brúarási kom fram fyrirspurn um slökkviliðin. Ég svaraði henni eftir bestu getu og minnti jafnframt á að okkar slökkvilið væru byggð upp af áhugasömum sjálfboðaliðum og það væri mjög mikilvægt að viðhalda áhuga meðal slökkviliðsmanna. Ég sagði að það hefði tekist mjög vel hjá Pétri Jónssyni og Guðmundi Hallgrímssyni hér hjá Slökkviliði Borgarfjarðardala. Ég þekkti það ekki nógu vel annarsstaðar en hins vegar vissi ég til þess að það hefði orðið að fella niður námskeið í Borgarnesi vegna þess að menn hefðu ekki mætt. EF ÞAÐ VÆRI VEGNA ÁHUGALEYSIS ÞÁ ÞYRFTI AÐ SKOÐA ÞAÐ. Úpsss, þetta var mun meira en sumir þoldu eða léku sér að því að misskilja þetta og strax næsta dag og það fyrir hádegi var komin spurning um hvort ég hefði talað illa um Slökkviliðið í Borgarnesi. Ég talaði ekki illa um slökkviliðið í Borgarnesi. Ég var einungis að benda á hvað væri mikilvægt að viðhalda áhuganum. Kannski á maður ekki að ræða málefni slökkvilið nema maður vilji brenna sig.
Og í lokin er ég skammaður fyrir að minnast á góð mál í Borgarfjarðarsveit og vilja eigna það allt Framsóknarmönnum og gleyma hlut starfsfólksins. Úpsss, hvað má ég eiginlega tala um ef ekki verk okkar í Borgarfjarðarsveit? Hins vegar hef ég aldrei eignað það Framsóknarmönnum heldur langoftast talað um okkur í Borgarfjarðarsveit og kannski einu sinni eða tvisvar minnt á sjálfan mig í þessu sambandi. Ég tók skýrt fram í útvarpi að þar hefði verið ópólitískur listi og við hefðum unnið vel saman að mörgum góðum málum. Þá hef ég ávallt líst yfir mikilli gleði með starfsfólk okkar og sagt það vinna vel. Ég get hins vegar ekki neitað því að mér finnst mjög gaman þegar aðrir rifja það upp og minna á að sú hreppsnefnd er auðvitað skipuð að meirihluta Framsóknarmönnum og sú eina sem ekki hefur gefið sig upp í flokkapólitík ætlar að vinna með okkur á næsta kjörtímabili.
Kannski mæti ég bara á fundinn í Borgarnesi með góða sögubók og les stuttan kafla. Þá ætti enginn að verða sár, nema ef honum líkar ekki höfundurinn.
Kveðja úr sveitinni, Sveinbjörn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2006 | 09:11
Fundur á Hvanneyri.
Sæl öll sömul.
Fundurinn á Hvanneyri í gærkvöldi var ágætur. Töluverð mæting var á fundinn og urðu umræður hinar fjörugustu. Rósa Marinósdóttir vinkona mín mætti vel undirbúin og með fangið fullt af erfiðum spurningum. Rósa er ein af þessum manneskjum sem gerir samfélagið ríkara. Í gegnum tíðina hefur hún ávallt verið tilbúin að taka sinn þátt og rúmlega það af samfélagsverkefnum og enn brennur eldur hugsjóna um betra samfélag í hennar brjósti.
Sama má reyndar segja um vin minn Sverri Heiðar. Hann hefur hvergi vikist undan verkefnum hvort sem um sveitarstjórnarmál eða íþrótta- og ungmennamál er að ræða.
Þetta er fólkið sem af sanngirni gerir kröfur til okkar sem stöndum á pöllum stjórnmálanna og halda því vonandi áfram lengi enn.
Á fundinum í gær kristallaðist sú hræðsla sem sjálfstæðismenn hafa gagnvart framboði okkar Framsóknarmanna. Menn sem skipa sæti á lista flokksins spurðu grimmt og þá fyrst og fremst okkur Framsóknarmenn. Svo rammt kvað að þessu að félagi minn Finnbogi Rögnvaldsson var farinn að "stelast" til að svara spurningum sem til okkar var beint svo hann týndist ekki á fundinum.
Ég hef undanfarið haft verulegar áhyggjur af því hvert meirihlutinn í Borgarbyggð er að fara með leikskólamálin. Þau mál voru töluvert rædd á fundinum og var fátt um efnisleg svör. Ljóst er að bæði Sjálfstæðismenn og Borgarlistamenn eru á harðahlaupum undan ábyrgð í því máli að klára sig af rekstri leikskólanna. Reyndar mátti að hluta greina sömu uppgjöf varðandi grunnskólana og þá er nú eðlilegt að manni bregði. Hvert er stefnt?
Ég velti þvi stundum fyrir mér hvort svona fundir hafa afgerandi áhrif á skoðun manna eða hvort þangað mæti fyrst og fremst þeir sem þegar hafa ákveðið hvað þeir kjósa. Ég held að okkur Framsóknarmönnum hafi tekist vel upp í gær að vekja menn til umhugsunar hvert stefni. Við komum málefnum okkar vel til skila og fengum ágætar undirtektir. Ég marka það af samtali sem ég átti við sjálfstæðismann eftir fundinn. Hann sagði að þessi fundur hefði ekki skipt sköpum. Það hefði hann ekki sagt ef hann hefði verið ánægður með sína menn. Þá hefði hljóðið verið annað enda sjálfstæðismenn meistarar í að gera mikið úr litlu ef þeirra menn eiga í hlut.
Haukur Júlíusson steig sín fyrstu pólitísku spor á fundinum í gærkvöld. Hann var ekki alltaf í takt eins og títt er um nýliða og mismælti sig illa þegar hann vildi ekki fara lengra en að Hítárá í vestur með nýtt sveitarfélag en var fljótur að leiðrétta sig. En Haukur sagði annað sem ég tek undir með honum af heilum hug. Hann sagðist bera virðingu fyrir öllum þeim sem taka þátt í sveitarstjórnarpólitík, hvar í flokki sem þeir standa. Laun heimsins eru vanþakklæti, ekki síst í pólitík. Nú stendur hins vegar yfir pólitísk fegurðarsamkeppni og liður í henni er að gera félaga sína og vini svolítið ótrúverðuga um leið og eigið ágæti er dásamað. Sú játning skal gerð hér að það er ekki skemmtilegt hlutverk en svona er þetta bara.
En áfram skal halda og í kvöld munum við hittast í Brúarási og eiga góða stund með kjósendum.
Kveðja Sveinbjörn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2006 | 08:36
Dagur í Kolbeinsstaðahreppi
Góðan daginn kæru vinir.
Mánudaginn 15. maí lá leið mín um Kolbeinsstaðahreppinn og reyndar lengra því ég byrjaði daginn á að heimsækja Jóhönnu skólastjóra í Laugagerðisskóla og hennar fólk. Ég fékk það sterkt á tilfinninguna að í Laugagerði sé rekið skemmtilegt skólasamfélag. Ekki síst er samstaða heimamanna aðdáunarverð. Það sést best á því að daginn eftir hafði Heimili og Skóli akveðið að verðlauna foreldrafélagið fyrir vel unnin störf. Ómetanlegt fyrir svona stofnun að hafa sterkt foreldrafélag.
Þá keyrði ég á nokkra bæi og átti góðar stundir með Kolhreppingum. Ég er alltaf að verða sannfærðari um að það var rétt að Kolhreppingar tækju þátt í þessari sameiningu.
Um kvöldið var opinn fundur allra framboða í Lindartungu. Ég hafði góða reynslu af fundahöldum í Lindartungu og vænti því mikils af fundinum. Það sannaðist hins vegar að pólitík á ekki roð í sauðkindina og mæting var lítil. Fundurinn var hins vegar skemmtilegur og frambjóðendur fengu ágæta málfundaræfingu ekki síst ég og Sigurður vinur minn í Hraunholtum. Alltaf gaman að glíma við Sigurð enda flytur hann mál sitt af þunga og gott ef hann er ekki enn trúr hugsjónum sínum. Það á hins vegar ekki við um ýmsa þá aðra sem kenna sig nú við breiðfylkingu félagshyggju. Mikið held ég að þeir hefðu nú gott af því að koma í pólitíska endurhæfingu hjá okkur Framsóknarmönnum.
Kveðja Sveinbjörn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2006 | 11:52
Menning á Vesturlandi
Ágætu vinir.
Ég var viðstaddur fyrstu úthlutum styrkja frá menningarráði Vesturlands í gær. Úthlutunin fór fram í húsakynnum Landnámsseturs í Borgarnesi.
Gaman var að sjá hversu fjölbreytt sú menning var sem hlaut náð fyrir augum úthlutnarnefndar. Mikil gróska er í þessum atvinnuvegi og hugmyndirnar óþrjótandi. Samt er það svo að seint fá allir það sem þeir óska eftir en þá er ekki annað að gera en þróa verkefnið betur og gefast ekki upp. Við erum að upplifa það að hlutur menningar í atvinnustarfsemi vex stöðugt og við verðum að hlúa vel að þeim vaxtarsprotum sem nú eru að skjótast upp úr frjóum jarðvegi menningar og sögu hér í landshlutanum
Hæðsta styrkinn að þessu sinni hlaut Landnámssetrið i Borgarnesi og kom það ekki á óvart. Gaman var líka að sjá rausnarlegan styrk til Snorrastofu þar sem Bergur Þorgeirsson minn ágæti vinur spinnur skemmtilega hvern þann þráð er glæðir söguna í Reykholti lífi.
Ég vil óska öllum þeim er fengu úthlutun í gær til hamingju með styrkinn og hvetja aðra til að vinna vel að sínu.
Kveðja Sveinbjörn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)