31.12.2008 | 09:14
Formannsslagur
Það er ánægjulegt að sjá hverjir gefa kost á sér til formennsku Framsóknarflokksins. 5 karlar hafa lýst áhuga sínum en með fullri virðingu fyrir þeim öllum þá held ég að baráttan muni standa milli þeirra þriggja Höskuldar, Páls og Sigmundar. Þeirra bíður ekki auðvelt hlutverk. Flokkurinn hefur ekki náð vopnum sínum og þrátt fyrir ágæta vinnu erum við enn í skugga langs samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. Ég hef ekki séð forystuna hlaupast undan ábyrgð liðinna ára - sem mér finnst gott - en tilraunir hennar til að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina hafa ekki borið árangur - því miður.
Ég velti fyrir mér hvernig "formannsslagstríóið" er undir það búið að breyta ásýnd flokksins.
Höskuldur hefur að mínu viti kynnt sig vel sem þingmaður. Hann er ágætlega máli farinn og setur mál sitt fram á einfaldan og skýran hátt. Hann hefur eins og aðrir þingmenn þurft að leggja mikið á sig í litlum þingflokki og komist vel frá erfiðum málum í efnahagshruninu. Þá hefur hann báða fætur á jörðinni hvað varðar umræðu um EB og ég hef allavega ekki heyrt hann tjá sig á óábyrgan hátt um þau mál. Höskuldur virðist baráttumaður af lífi og sál og gott er að minnast þess að hann var kosningastjóri í norðausturkjördæmi árið 2003 þegar flokkurinn fékk 4 þingmenn. Þá nýtur Höskuldur þess umfram hina að "rödd hans heyrist á þingi" en ef ég man rétt taldi einn af fyrrum formönnum flokksins, Jón Sigurðsson, það nauðsynlegt. Ég ætla að halla mér að Höskuldi.
Páll hefur langa reynslu í pólitík og hefur verið flokksmaður lengi. Hann þekkir marga og margir þekkja hann. Það getur bæði verið kostur og galli ekki síst núna þegar menn þykjast sjá "óheppileg" tengsl í hverju horni. Löng reynsla sem aðstoðarmaður ráðherra og sem varaþingmaður mun nýtast Páli í baráttunni og sem formaður, verði hann kosinn. Ég hef skilið málflutning Páls á þann veg að hann sé mjög áhugasamur um að skoða vel kosti þess að Ísland gangi í EB. Á fundi hér í Borgarnesi rétt fyrir áramót fór hann yfir það mál og gerði það vel. En mér- sem forpokuðum andstæðingi EB aðildar - líkar ekki þegar flokksmenn gæla við þann klúbb. Páll er sá eini af frambjóðendunum sem hefur sent mér kynningarbækling. Það var gott framtak hjá honum. Hann ætlar sér sigur. Alltaf gott þegar menn einhenda sér af krafti í hlutina.
Sigmund Davíð þekki ég ekki neitt - bara alls ekkert. Fram hefur komið að hann hafi gengið í flokkinn rétt fyrir jól. Ég man eftir honum sem fréttamanni og á síðasta ári kom hann fram í umræðum um borgarmálefni og fleira. Það sem ég heyrði til hans var gott og vakti athylgi. Mér finnst Sigmundur brattur að ætla sér beint í formannsstól. Ég held að það sé ekki rétta leiðin. Mér finnst að menn þurfi að "sanna" sig í flokksstarfinu og sýna fyrir hvað menn standa. Hins vegar held ég að það sé rétt sem fram hefur komið að hann hafi fengið áskoranir frá mjög mörgum Framsóknarmanninum úr grasrótinni. Það er fólk sem vill breytingar - verulegar breytingar - og telur best að henda öllu hinu gamla og byrja upp á nýtt - með tvær hendur tómar - en hjartað fullt af hugsjónum samvinnu og félagshyggju. Þannig byrjaði þetta jú allt fyrir tæpum 100 árum.
Flokksþingið í janúar verður spennandi. Framtíð flokksins er full af tækifærum og okkar er að grípa þau og byggja upp. Einhverjir fara heim án þess að fá óskir sínar uppfylltar. Þá er bara að bíta í skjaldarrendur og halda baráttunni áfram - og þá fyrst og fremst út á við. Höfum nú einu sinni vit á því.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.