19.5.2006 | 21:26
Hvað má?
Sæl öllsömul.
Eftir ágæta fundarlotu nú undanfarið þá hef ég velt ýmsu fyrir mér og í leið rifjað upp brot úr einum texta Jónasar Árnasonar hvar segir: "Það er meðal annars það sem ekki má".
Ég hef í raun aldrei verið í framboðsslag áður þó sumir haldi annað. Kannski þess vegna hefur það gleymst að afhenda mér bæklinginn " Þetta má ræða á framboðsfundum í Borgarfirði".
Ég hef leyft mér að ræða leikskólamál. Háskólaráð Viðskiptaháskólans á Bifröst sá ástæðu til að setja ofaní við mig vegna þess með sérstakri ályktun Þar segir í upphafi.
"Þar sem málefni leikskólans á Bifröst hafa verið dregin inn í kosningabaráttu vegna sveitarstjórnarkosninga í nýju sameinuðu sveitarfélagi í Borgarfirði sendir Háskólaráð frá sér svohljóðandi ályktun:"
Úpss, asni get ég verið. Ég gleymdi alveg að biðja þá á Bifröst um leyfi til að ræða þetta. Ég sem hélt að leikskólamál væri kannski það algengasta sem menn ræddu einmitt í kosningabaráttu. Nei, hér heitir þetta að draga málefni inn.... Verð víst að passa mig betur næst.
Á fundi í Brúarási kom fram fyrirspurn um slökkviliðin. Ég svaraði henni eftir bestu getu og minnti jafnframt á að okkar slökkvilið væru byggð upp af áhugasömum sjálfboðaliðum og það væri mjög mikilvægt að viðhalda áhuga meðal slökkviliðsmanna. Ég sagði að það hefði tekist mjög vel hjá Pétri Jónssyni og Guðmundi Hallgrímssyni hér hjá Slökkviliði Borgarfjarðardala. Ég þekkti það ekki nógu vel annarsstaðar en hins vegar vissi ég til þess að það hefði orðið að fella niður námskeið í Borgarnesi vegna þess að menn hefðu ekki mætt. EF ÞAÐ VÆRI VEGNA ÁHUGALEYSIS ÞÁ ÞYRFTI AÐ SKOÐA ÞAÐ. Úpsss, þetta var mun meira en sumir þoldu eða léku sér að því að misskilja þetta og strax næsta dag og það fyrir hádegi var komin spurning um hvort ég hefði talað illa um Slökkviliðið í Borgarnesi. Ég talaði ekki illa um slökkviliðið í Borgarnesi. Ég var einungis að benda á hvað væri mikilvægt að viðhalda áhuganum. Kannski á maður ekki að ræða málefni slökkvilið nema maður vilji brenna sig.
Og í lokin er ég skammaður fyrir að minnast á góð mál í Borgarfjarðarsveit og vilja eigna það allt Framsóknarmönnum og gleyma hlut starfsfólksins. Úpsss, hvað má ég eiginlega tala um ef ekki verk okkar í Borgarfjarðarsveit? Hins vegar hef ég aldrei eignað það Framsóknarmönnum heldur langoftast talað um okkur í Borgarfjarðarsveit og kannski einu sinni eða tvisvar minnt á sjálfan mig í þessu sambandi. Ég tók skýrt fram í útvarpi að þar hefði verið ópólitískur listi og við hefðum unnið vel saman að mörgum góðum málum. Þá hef ég ávallt líst yfir mikilli gleði með starfsfólk okkar og sagt það vinna vel. Ég get hins vegar ekki neitað því að mér finnst mjög gaman þegar aðrir rifja það upp og minna á að sú hreppsnefnd er auðvitað skipuð að meirihluta Framsóknarmönnum og sú eina sem ekki hefur gefið sig upp í flokkapólitík ætlar að vinna með okkur á næsta kjörtímabili.
Kannski mæti ég bara á fundinn í Borgarnesi með góða sögubók og les stuttan kafla. Þá ætti enginn að verða sár, nema ef honum líkar ekki höfundurinn.
Kveðja úr sveitinni, Sveinbjörn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.