17.5.2006 | 09:11
Fundur á Hvanneyri.
Sæl öll sömul.
Fundurinn á Hvanneyri í gærkvöldi var ágætur. Töluverð mæting var á fundinn og urðu umræður hinar fjörugustu. Rósa Marinósdóttir vinkona mín mætti vel undirbúin og með fangið fullt af erfiðum spurningum. Rósa er ein af þessum manneskjum sem gerir samfélagið ríkara. Í gegnum tíðina hefur hún ávallt verið tilbúin að taka sinn þátt og rúmlega það af samfélagsverkefnum og enn brennur eldur hugsjóna um betra samfélag í hennar brjósti.
Sama má reyndar segja um vin minn Sverri Heiðar. Hann hefur hvergi vikist undan verkefnum hvort sem um sveitarstjórnarmál eða íþrótta- og ungmennamál er að ræða.
Þetta er fólkið sem af sanngirni gerir kröfur til okkar sem stöndum á pöllum stjórnmálanna og halda því vonandi áfram lengi enn.
Á fundinum í gær kristallaðist sú hræðsla sem sjálfstæðismenn hafa gagnvart framboði okkar Framsóknarmanna. Menn sem skipa sæti á lista flokksins spurðu grimmt og þá fyrst og fremst okkur Framsóknarmenn. Svo rammt kvað að þessu að félagi minn Finnbogi Rögnvaldsson var farinn að "stelast" til að svara spurningum sem til okkar var beint svo hann týndist ekki á fundinum.
Ég hef undanfarið haft verulegar áhyggjur af því hvert meirihlutinn í Borgarbyggð er að fara með leikskólamálin. Þau mál voru töluvert rædd á fundinum og var fátt um efnisleg svör. Ljóst er að bæði Sjálfstæðismenn og Borgarlistamenn eru á harðahlaupum undan ábyrgð í því máli að klára sig af rekstri leikskólanna. Reyndar mátti að hluta greina sömu uppgjöf varðandi grunnskólana og þá er nú eðlilegt að manni bregði. Hvert er stefnt?
Ég velti þvi stundum fyrir mér hvort svona fundir hafa afgerandi áhrif á skoðun manna eða hvort þangað mæti fyrst og fremst þeir sem þegar hafa ákveðið hvað þeir kjósa. Ég held að okkur Framsóknarmönnum hafi tekist vel upp í gær að vekja menn til umhugsunar hvert stefni. Við komum málefnum okkar vel til skila og fengum ágætar undirtektir. Ég marka það af samtali sem ég átti við sjálfstæðismann eftir fundinn. Hann sagði að þessi fundur hefði ekki skipt sköpum. Það hefði hann ekki sagt ef hann hefði verið ánægður með sína menn. Þá hefði hljóðið verið annað enda sjálfstæðismenn meistarar í að gera mikið úr litlu ef þeirra menn eiga í hlut.
Haukur Júlíusson steig sín fyrstu pólitísku spor á fundinum í gærkvöld. Hann var ekki alltaf í takt eins og títt er um nýliða og mismælti sig illa þegar hann vildi ekki fara lengra en að Hítárá í vestur með nýtt sveitarfélag en var fljótur að leiðrétta sig. En Haukur sagði annað sem ég tek undir með honum af heilum hug. Hann sagðist bera virðingu fyrir öllum þeim sem taka þátt í sveitarstjórnarpólitík, hvar í flokki sem þeir standa. Laun heimsins eru vanþakklæti, ekki síst í pólitík. Nú stendur hins vegar yfir pólitísk fegurðarsamkeppni og liður í henni er að gera félaga sína og vini svolítið ótrúverðuga um leið og eigið ágæti er dásamað. Sú játning skal gerð hér að það er ekki skemmtilegt hlutverk en svona er þetta bara.
En áfram skal halda og í kvöld munum við hittast í Brúarási og eiga góða stund með kjósendum.
Kveðja Sveinbjörn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.