12.5.2006 | 08:44
Skemmtilegur dagur
Sælir sveitungar.
Við Framsóknarmenn áttum ágætan miðvikudag. Þá heimsóttum við fyrirtæki, stofnanir og hestamenn í Borgarnesi auk þess sem við opnuðum kosningaskrifstofu. Með okkur í för voru Gunði Ágústsson varaformaður flokksins og landbúnaðarráðherra og Magnús Stefánsson alþingismaður og formaður fjárlaganefndar.
Það er alltaf gaman að hitta Konráð í Loftorku sem ávallt er á vaktinni í sínu fyrirtæki. Hann rölti með okkur, sýndi okkur starfsemina og sagði frá því sem helst er á baugi. Samtöl við starfsmenn voru skemmtileg en þau gengu ekki alltaf auðveldlega fyrir sig því í Loftorku má mjög greinilega finna þá spennu sem er á vinnumarkaði því þriðjungur starfsmanna eru útlendingar.
Í viðtölum við Konráð kom m.a. fram að árið 1995 voru starfsmenn Loftorku um 30, nú eru þeir rétt að slá í 200. Skemmtilegt að skoða þessar tölur í ljósi þess að þennan tíma hefur Framsóknarflokkurinn verið í ríkisstjórn og farið með atvinnumálin.
Arnar Sigurðsson forstöðumaður sölusviðs sýndi okkur Vírnet og sagði frá starfsemi. Vírnet hefur vaxið skemmtilega á síðustu árum ekki síst fyrir samruna eða kaup á öðrum fyrirtækjum. Mjög gaman var að koma í fyrirtækið og hitta starfsmenn þess.
Við heimsóttum nýjar bæjarskrifstofur undir leiðsögn Páls bæjarstjóra og drukkum kaffi með starfsmönnum. Í samtölum við þá kom fram að það mun ekki síst mæða á starfsmönnum hins nýja sveitarfélags fyrst eftir sameiningu til að við getum byggt upp hér betra samfélag. Starfsmennirnir taka hlutverk sitt alvarlega og einmitt þegar við komum var hluti þeirra í þjálfun við vinnslu í nýju bókhaldskerfi.
Þá renndum við í hesthúsahverfi Skuggamanna og hittum þar stjórn Halldór Sigurðsson fomann ásamt fleiri stjórnarmönnum og Kristján Gíslason skólastjóra sem hefur farið fyrir í undirbúningsvinnu vegna byggingar reiðhallar í Borgarnesi. Guðni hét því að hann myndi styrkja bygginguna og hvatti menn til dáða. Dóri tók vel á móti okkur með kaffi og rjúkandi vöfflum með alvöru rjóma. Kærar þakkir Guðrún.
Við röltum aðeins um hverfið og hittum hestamenn á útreiðum og við hirðingu. Mátti vel greina að sumir þeirra eru komnir hálfa leið á landsmót. Gott að vita að það er hugur í Skuggamönnum. Þá ræddu þeir reiðleiðir og reiðvegi í nágrenni hverfisins og ljóst að þar má gera betur.
Þetta var góður dagur og þakka ég öllum sem tóku á móti okkur og gáfu okkur hluta af sínum dýrmæta tíma.
Kveðja, Sveinbjörn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.