10.5.2006 | 10:39
Kosingabarátta.
Sæl öllsömul.
Alla jafna eru öll dýrin í hinum pólitíska skógi vinir. Það er reynsla mín að það sé gott að vinna með flestum þeim sem gefa sig að sveitarstjórnarstörfum og í raun eiga allir heiður skilinn sem vilja taka þátt í þessum vanþakklátu störfum.
En á fjögurra ára fresti gerist eitthvað! Þá fara menn að brýna klærnar og af stað fer einhver óskilgreind "fegurðarsamkeppni". Menn standa á torgum og dásama sjálfan sig og sína stefnu en vilja ekkert kannast við það ágæta fólk sem það hefur átt gott samstarf við undanfarin ár.
Þetta er sérkennilegt - en samt nauðsynlegt. Kjósendur eiga auðvitað rétt á að vita fyrir hvaða áherslur menn og flokkar standa til að geta valið þá fulltrúa sem stjórna sveitarfélaginu næstu fjögur árin.
Og kjósendur verða að muna lengur en fram að kjördegi hverju var lofað til að geta borið saman við verkin. Þar er oft himinn og haf á milli.
Í okkar ágæta nýja sveitarfélagi stendur valið milli þriggja framboða. Það er sérkennileg staða að áður en stefnuskrá framboðanna var lögð fram virðast fulltrúar Borgarlistans og Sjálfstæðisflokks hafa ákveðið að starfa saman, líkt og þeir hafa gert í bæjarstjórn Borgarbyggðar undanfarin fjögur ár.
Er þetta bara hægt?
Hvernig er hægt að hafna samstarfi við okkur Framsóknarmenn án umræðu og án málefnalegs ágreinings? Hvar er lýðræðið í þeim vinnubrögðum?
Ég hef átt ágætt samstarf við þetta fólk t.d. í sameiningarvinnu fyrir sveitarfélögin sem ég stýrði með þeim árangri að nú verða fjögur sveitarfélög að einu. Ég varð hvergi var við þá hnökra í þeirri vinnu að það ætti að fæla frá samstarfi við okkur Framsóknarmenn. Þvert á móti. Þess vegna eru þessar kveðjur til okkar sérkennilegar og Borgarlistinn og Sjálfstæðismenn skulda kjósendum skýringar.
Eina raunhæfa svar okkar Framsóknarmanna er því að stefna að góðum sigri í kosningum hér í vor þannig að við fáum meirihluta í sveitarstjórn. Einhverjum kann að þykja það óraunhæft en þegar grannt er skoðað er það ekki fjarlægur möguleiki.
Þá munum við upplifa skemmtilega þróun í bland við nauðsynlegar breytingar.
Kveðja frá Hvanneyri, Sveinbjörn
Athugasemdir
Flott hjá þér Sveinbjörn, þ.e. að hafa svona síðu í gangi. Ég þarf náttúrulega ekki að vera sammála því sem hér stendur...
Legg til að þú fjarlægir klukkuna af síðunni, svo að allir sjái ekki hvenær dagsins textinn er skrifaður...
Gangi þér vel í baráttunni við okkur hina, þetta fer allt einhvernveginn!!!
Áfram ex-_é (setjið inn bókstaf eftir trúfestu)
Kveðja
Snorri Sig.
Snorri Sig (IP-tala skráð) 11.5.2006 kl. 00:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.