Kosningaloforð!!!

Það stóð ekki á viðbrögðum við færslu minni um að vera sjálfum sér samkvæmur.  Ég er látinn heyra það að við séum allir eins þessi stjórnmálamenn og flokkar og engu sé treystandi.  Það er napurt að fá þessa falleinkunn.  Átta mig svo á því að þessi söngur kemur fyrst og fremst úr kór þeirra framboða sem settu sveitarfélagið á hausinn og það hentar þeim núna að gera lítið úr þeim sem reyna að vera heiðarlegir við kjósendur, BÆÐI FYRIR OG EFTIR KOSNINGAR.  Leyfi mér að taka smá dæmi úr síðustu kosningabaráttu.

Leikskólamál voru þá mjög í umræðunni.  Við Framsóknarmenn fórum vel yfir þann málaflokk.  Okkar niðurstaða var sú að í ljósi þess að við ættum eftir að klára Ugluklett og byggja nýjan Andabæ þá væri ekki svigrúm til að lækka leikskólagjöld og í raun frekar líkur á að það þyrfti að hækka gjöldin.  Þess til viðbótar vildum við taka inn börn frá 18 mánaða aldri, sem er frábært þjónustustig.  Þetta var okkar stefna.

Samfylking og vinstri grænir lofuðu gjaldfrjálsum leikskóla.  Orðrétt sagði í stefnuskránni.  ..."Stefnt skal að því að tryggja öllum 2-5 ára börnum leikskólapláss án endurgjalds."... Aldrei á síðasta kjörtímabili var gerð hin minnsta tilraun til að standa við þetta loforð, aldrei.  Samt var á þessum tíma mesta "gullaldarskeið" sveitarfélaga á Íslandi.

Sjálfstæðisflokkurinn setti í stefnuskrá.   "Við ætlum að lækka leikskólagjöld".  Urðu einhverjir foreldrar varir við það???

Niðurstaðan varð sú að við kláruðum leikskólana, tókum inn börn frá 18 mánaða aldri (stundum yngri) og lækkuðum gjöldin ekki neitt, hvað þá að leikskólarnir yrðu gjaldfrjálsir.

Því er eðlilegt að spyrja.  Hvað eru margir foreldrar sem létu glepjast af fagurgalanum og eru enn að bíða eftir gjaldfrjálsum leikskóla??


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sveinbjörn

Tek þennan pistil alveg til mín þar sem ég var sú sem sagði að ég treysti ekki neinum stjórnmálaflokki til að standa við gefin loforð og að ég treysti ekki stjórnmálamönnum. Enda hefur það sýnt sig í gegnum tíðina að allir flokkar lofa öllu fögru (þangað til kannski allt í einu núna þegar stjórnmálaflokkarnir keppast við að sýna sem mest aðhald í fjárlögum svo sveitarfélagið fari nú ekki alveg á hausinn) og svo eftir kosningar þá eru efndirnar afar litlar oft og tíðum. Stjórnmálamenn, alveg sama í hvaða flokki þeir eru, fá líka flestir þann eiginleika um leið og þeir eru kosnir að svara spurningum án þess að svara þeim í raun þannig að spyrjandinn er yfirleitt engu nær. Koma með einhverja rosalega ræðu um eitthvað sem svarar í fæstum tilfellum spurningunni. Flest þetta fólk sem fer í framboð, er hins vegar ágætis fólk þegar pólitíkin er ekki að flækjast of mikið fyrir því.

Það er mín skoðun að frambjóðendur eigi að setja fram kosningamarkmið, ekki loforð. Loforð er það alvarleg skuldbinding í mínum huga, að það á ekki að vera að nota það orð ef viðkomandi aðili sér fram á að efndirnar verði litlar sem engar. Það fer líka skelfilega í taugarnar á mér þegar framboðslistar eru að ýta undir eigið ágæti með því að gera lítið úr öðrum flokkum. Þótt einstaklingar séu allir af vilja gerðir til þess að leysa öll vandamál sveitarfélagsins þá er ekki einræði hérna þannig að af og til þurfa þeir (sem finnast þeir hafa rétt fyrir sér í flestum málum) að láta í minni pokann fyrir hinum í sveitarstjórn (sem finnast þeir líka hafa rétt fyrir sér í flestum málum). Þannig að það er best fyrir alla að spara stóru orðin og sjá hverju heildin fær áorkað.

Ég myndi kjósa þann stjórnmálaflokk sem verður samkvæmur sjálfum sér og sínum markmiðum eftir kosningar og kemur hreinskilnislega fram alveg sama hversu erfitt það er fyrir kjósendur að heyra. Því miður er þá of seint að kjósa. Ég vil fá fólk í sveitarstjórn sem svarar hreinskilnislega, er ekki með þetta bévítans kjaftæði og fer í kringum spurningar kjósenda án þess að gefa hreinskilið og ákveðið svar. Ég vil að allt sé opið og gagnsæi 100%. Ef það er spurt: "af hverju er ekki hægt að gera þetta svona?" þá vil ég að því sé svarað með góðum og gildum ástæðum og af hreinskilni, t.d. "af því að þetta er svona og svona og þess vegna er þetta ekki hægt." Málið dautt. (Og þá á ég við að orðið "svona" sé tekið út úr spurningu og svari og það sett inn sem við á hverju sinni, bara svo það leiki enginn vafi á því).

Ég er ekkert frekar að setja út á framsókn frekar en aðra flokka, þú ert bara duglegastur að setja statusa á facebook varðandi pólitík og kosningar. :)

Með allra bestu kveðjum, Margrét Helga

Margrét Helga (IP-tala skráð) 14.5.2010 kl. 13:37

2 identicon

Ég var nokkra stund að átta mig á að þú varst að svara viðbrögðum af öðrum vettvangi en bloggsíðunni Sveinbjörn. Hélt hreinlega að þú værir genginn af göflunum ef þetta væru viðbrögð við svarinu sem ég sendi á umrædda bloggfærslu. Ég skil vel orð Margrétar Helgu. Það er erfitt fyrir alla að treysta nokkru í þessu furðulega árferði. Þess vegna vilja fæstir lofa nokkru öðru en að standa við þau grundvallargildi sem þeir standa fyrir. Það er óvissa allsstaðar og þeir sem lofa handföstum gerðum sem ekki eru nokkuð vel undirbyggðir eru bara ekki trúverðugir. Það má þó algerlega lofa að standa með þessu sveitarfélagi og grafa ekki undan undirstöðum þess með því að stilla ákveðnum hópum upp við vegg með ógnunum. Ef við gerum það þá glutrum við bara niður þeim tækifærum sem sveitarfélagið býr yfir.

Anna María Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 14.5.2010 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband