29.5.2010 | 08:38
Morgunstund...þið vitið hvað
Vaknaði frekar snemma, úthvíldur og tilbúin í átök dagsins. Hestarnir voru fegnir að komast út og fá morgungjöfina í gerðinu. Ótrúlega ömurleg þessi hestapest.
Rölti í garðinn og sá að kartöflugrösin eru farin að kíkja vel upp úr moldinni. Það er ég viss um að er gott merki fyrir úrslit dagsins i dag. Ef þú vandar þig þá uppskerðu. Við vönduðum okkur Framsóknarmenn - og vonandi verða margir til að finna samleið með okkur í dag og næstu árin.
Kosningabaráttan var mun rólegri en fyrir fjórum árum. Hún var ekki nærri eins persónuleg og kjósendur vildu gjarnan tala við okkur frambjóðendur. Hins vegar finnur maður líka ótrú. Get vel skilið að sumir eru búnir að fá nóg af okkur. Nú verðum við stjórnmálamenn að standa okkur, hvar sem við stöndum í flokki.
Sigurbjörg í Raunanesi á afmæli í dag og bauð öllum vinum sínum með á Hafnarfjallið. Vonandi fara margir með henni á toppinn. Ég verð að vera heima - enda stefni ég á enn hærri tind í dag. Ég ætla að klífa kosningatindinn og vonandi mun fáni Framsóknarflokksins blakta sem aldrei fyrr á þeim toppi.
Kæru lesendur. Vona að þið hugsið fallega til okkar Framsóknarmanna í dag. Í hjörtum okkar er von og trú. Þó peningar séu af skornum skammti þá höfum við þó tvær hendur til að láta óskir okkar rætast. Við erum tilbúnir.
KOMA SVO.....
29.5.2010 | 08:27
Grein úr Skessuhorni.
Eftirfarandi grein birtist í Skessuhorni um miðja viku,
Framsóknarflokkurinn í Borgarbyggð lítur björtum augum til framtíðar. Borgarbyggð á alla möguleika að verða til fyrirmyndar með réttri forgangsröðun og góðri nýtingu tækifæra. Fortíðin er á margan hátt grimm og þó það henti Framsóknarflokknum vel að velta sér upp úr mistökum annarra flokka þá skiptir það íbúa mestu máli að kjósa flokk sem hefur skýra sýn til framtíðar og er tilbúinn að taka á með íbúum, fyrirtækjum og stofnunum við uppbyggingu.
|
Framsóknarflokkurinn hefur lýst því hvernig með aukinni markaðssetningu megi laða hingað fólk og fyrirtæki, hvernig vanda skuli ákvarðanatöku og nauðsyn þess að standa vörð um starf grunn- og leikskóla. Þess til viðbótar vill Framsóknarflokkurinn leggja áherslu á öfluga félagsþjónustu á erfiðum tíma og fjölskylduvænt umhverfi. Félagsþjónusta og fjölskylduvænt umhverfi eru í raun af sama meiði. Félagslegt öryggisnet sveitarfélagsins er ætlað til að aðstoða þá sem af einhverjum ástæðum verða undir og geta ekki án aðstoðar tekið virkan þátt í leik og starfi. Á sama hátt er fjölskylduvænt umhverfi skilgreining á því að íbúar óttist ekki á erfiðum tímum að grunnþjónustan bresti þó hún e.t.v. breytist. Hér verður alltaf góður grunnskóli, hér verður alltaf góður leikskóli og það verður áfram félagsþjónusta við aldraða. Það að íbúar séu öruggir um að hafa þessa grunnþætti í lagi veitir ákveðna lífsfyllingu, nóg er nú samt. Fulltrúar Framsóknarflokksins munu fara fyrir í jákvæðum málflutningi á næstu árum. Við munum byggja upp. Við munum vinna á fjármálum sveitarfélagsins. Við munum glæða lífið gleði og von með því að virkja það góða. Fulltrúar Framsóknarflokksins lifa eftir því að sá sem vill, finnur leið, sá sem vill ekki, finnur afsökun.. Framsóknarflokkurinn vill vinna með þér við að byggja betra samfélag. |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2010 kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)