14.5.2010 | 13:03
Kosningaloforð!!!
Það stóð ekki á viðbrögðum við færslu minni um að vera sjálfum sér samkvæmur. Ég er látinn heyra það að við séum allir eins þessi stjórnmálamenn og flokkar og engu sé treystandi. Það er napurt að fá þessa falleinkunn. Átta mig svo á því að þessi söngur kemur fyrst og fremst úr kór þeirra framboða sem settu sveitarfélagið á hausinn og það hentar þeim núna að gera lítið úr þeim sem reyna að vera heiðarlegir við kjósendur, BÆÐI FYRIR OG EFTIR KOSNINGAR. Leyfi mér að taka smá dæmi úr síðustu kosningabaráttu.
Leikskólamál voru þá mjög í umræðunni. Við Framsóknarmenn fórum vel yfir þann málaflokk. Okkar niðurstaða var sú að í ljósi þess að við ættum eftir að klára Ugluklett og byggja nýjan Andabæ þá væri ekki svigrúm til að lækka leikskólagjöld og í raun frekar líkur á að það þyrfti að hækka gjöldin. Þess til viðbótar vildum við taka inn börn frá 18 mánaða aldri, sem er frábært þjónustustig. Þetta var okkar stefna.
Samfylking og vinstri grænir lofuðu gjaldfrjálsum leikskóla. Orðrétt sagði í stefnuskránni. ..."Stefnt skal að því að tryggja öllum 2-5 ára börnum leikskólapláss án endurgjalds."... Aldrei á síðasta kjörtímabili var gerð hin minnsta tilraun til að standa við þetta loforð, aldrei. Samt var á þessum tíma mesta "gullaldarskeið" sveitarfélaga á Íslandi.
Sjálfstæðisflokkurinn setti í stefnuskrá. "Við ætlum að lækka leikskólagjöld". Urðu einhverjir foreldrar varir við það???
Niðurstaðan varð sú að við kláruðum leikskólana, tókum inn börn frá 18 mánaða aldri (stundum yngri) og lækkuðum gjöldin ekki neitt, hvað þá að leikskólarnir yrðu gjaldfrjálsir.
Því er eðlilegt að spyrja. Hvað eru margir foreldrar sem létu glepjast af fagurgalanum og eru enn að bíða eftir gjaldfrjálsum leikskóla??
14.5.2010 | 10:35
Að vera sjálfur sér samkvæmur!!!
Mér finnst alltaf fróðlegt að lesa stefnuskrár framboða. Hér í Borgarbyggð hafa þrjú framboð birt sína stefnu og því ekki enn hægt að gera alsherjar úttekt.
Við Framsóknarmenn förum venju fremur varlega í þetta sinn. Fjárhagur sveitarfélagsins eftir 10 ára valdatíma Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Samfylkingar er með þeim hætti að nú róa menn lífróður undir vökulu auga "eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga".
Síðasta árið hjá sveitarstjórn hefur farið í mjög sársaukafullan niðurskurð t.d í málefnum leikskóla. Opnunartími hefur verið skertur og starfsmannafundir færðir á "vinnutíma". Auðvitað hefur þetta valdið vandræðum, hjá starfsfólki, hjá foreldrum og e.t.v. hjá börnum.
Í stefnuskrá Samfylkingar má finna eftirfarandi: "Við viljum lengja opnunartíma leikskóla og styðja þannig betur við foreldra á vinnumarkaði. Sá kostnaðarauki sem slíkt felur í sér er lítill í samanburði við þann kostnað sem foreldrar þurfa annars að bera vegna styttri opnunartíma."
Þetta verður að teljast mjög fallegt kosningaloforð. Vandinn er bara sá að það er ekki gerð grein fyrir því hvernig á að fjármagna það. Það er líka merkilegt fyrir þær hluta sakir að fulltrúar Samfylkingarinnar í sveitarstjórn samþykktu þessar breytingarán sérstakra athugasemda. Eins og aðrir fulltrúar gerðu þeir það væntanlga af illri nauðsyn.
Þór Þorsteinsson frambjóðandi Samfylkingarinnar skrifar grein í Skessuhornið í þessari viku. Þar er fjallað um fræðslumál (mest þó grunnskólamál). Í greininni stendur orðrétt. "Í ljósi fjárhagsstöðu sveitarfélagsins væri það óráðlegt af nokkru framboði að lofa stórauknu fjármagni til fræðslumála næstu ár og því verður það að vera okkar verkefni að laga okkur að nýjum veruleika".
Með vísan í ofanritað finnst mér líklegast, að Þór sé að beina þessum orðum sínum sérstaklega til meðframbjóðenda sinna hjá Samfylkingunni.
Í stjórnmálum er kallað eftir heiðarleika. Samfylkingin í Borgarbyggð kallar eftir ýmsum rannsóknum á eigin gerðum s.s. í málefnum Sparisjóðsins sáluga og Menntaborgar. Ef það á að taka mark á þeim orðum verða frambjóðendur að vera sjálfum sér samkvæmir. Kosningaloforðum á að fylgja verðmiði og það þarf að gera grein fyrir hvernig þau verða greidd.
Fyrr verða menn ekki samkvæmir sjálfum sér. Fyrr verða þeir ekki marktækir í umræðu.