10.5.2010 | 15:03
Hugleiðing um Landbúnað
Ég naut þess heiðurs að vera beðinn um að skrifa hugleiðingu um landbúnað í Smalann, rit sauðfjárbænda í Borgarfirði. Leyfi mér að láta þessa grein fljóta hér með enda er þar tæpt á ýmsu sem gert hefur verið og ýmsu sem hægt er að gera.
Framtíðarhorfur landbúnaðar í Borgarfjarðarhéraði.Fleyg eru orð Eiríks Rauða er hann lýsti landkostum Grænlands með þeim orðum að..þar drýpur smjör af hverju strái. Hann var auðvitað að ljúga. Það eru hins vegar bæði gömul og ný sannindi að Borgarfjarðarhérað er ákaflega vel fallið til landbúnaðar og búsetu, hvort sem litið er til búfjár- eða jarðræktar, jarðgæða, hlunninda, náttúrfegurðar eða menningar.
Íslenskur landbúnaður hefur breyst mikið á undanförnum áratugum og kemur margt til. Tæknivæðing auðveldar stærri einingar. Afurðir eftir grip hafa aukist. Landbúnaðurinn hefur tekið við nýjum viðfangsefnum og bændur gera sömu kröfur og aðrir um afkomu og tómstundir. Einnig er nauðsynlegt að nefna að samkeppni við aðrar vörur hefur vaxið mikið og við því varð að bregðast. Raunar er mjög merkilegt, miðað við breytingar í því sem við köllum hefðbundin búskap, að enn skuli vera jafn mikið líf og gróska í íslenskum sveitum .
Á þeim erfiðu tímum sem undanfarið hafa dunið yfir er mjög ánægjulegt að heyra hina jákvæðu rödd til handa íslenskum landbúnaði. Oft þurfa menn spark til að meta hið sjálfsagða. Það var ekkert talið sjálfsagt að framleiða hér matvæli þegar þau fengust á lægra verði annarsstaðar. Nú hafa þær raddir hljóðnað. Nú skilja menn nauðsyn þess að vera sjálfum sér nægur. Og ekki síður að vara sé holl og framleidd við bestu aðstæður. Í hreinni og heilnæmri náttúru þar sem vatnið streymir. Hreint og gott vatn, eins sjálfsagt og það þykir hér á landi, er takmörkuð auðlind í heiminum, munum það.
Borfirskir bændur hafa verið duglegir að tileinka sér nýjungar og oft verið frumkvöðlar. Ferðaþjónustan í Húsafelli hefur orðið mörgum fyrirmynd og þannig er um fleira. Nýting jarðhita á vöggu sína í Borgarfirði hvað talið er. Veiðar í ám og vötnum er veruleg búbót og borgfirskir veiðibændur ruddu brautina, fengu hingað forríka útlendinga og skipulögðu starfsemina þannig að litið er til hennar í öðrum löndum. Það fer kannski hljótt en vöxtur trjáa er víst með allra mesta móti í Borgarfirði, það sýna tölur úr Skorradal.
Náttúran og menningin verða í framtíðinni vaxandi viðfangsefni landbúnaðarins. Í því felast miklir möguleikar, sem við höfum þegar upplifað. Við sjáum það í Reykholti, við sjáum það í Húsafelli og við sjáum það á Bifröst og við sjáum það víðar. Möguleikarnir eru óþrjótandi ef að þeim er gáð og að þeim hlúð. Ég er bjartsýnn fyrir hönd fjölbreytts landbúnaðar í Borgarfirði. Við munum upplifa breytingar en lítum á þær sem tækifæri. Við höfum gert það áður og eigum að gera það aftur.
Fyrir rúmum hundrað árum sá Hannes Hafstein mörg tækifæri fyrir íslenska þjóð, ekki síst í landbúnaðinum. Rifjum upp eitt erindi og veltum því fyrir okkur hvort þetta ljóð hafi ekki getað verið ort í gær eða í dag og þá af íslenskum bónda sem drukkið hefur í sig menninguna og kraftinn sem fylgir hinni íslensku sveit.
Sú kemur tíð er sárin foldar gróa,sveitirnar fyllast, akrar hylja móa.
Brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,
menningin vex í lundi nýrra skóga.
Með kveðju, Sveinbjörn Eyjólfsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2010 | 08:49
Sveitarstjórnarkosningar
Ágætu vinir.
Nú styttist verulega í sveitarstjórnarkosningar. Framsóknarmenn eru tilbúnir og hafa lagt fram stefnuskrá. Eins og áður er sú stefnuskrá raunsæ og tekur mið af aðstæðum.
Framsóknarmenn leggja mesta áherslu á 5 liði en þeir eru:
1. Aukin markaðssetning aukin atvinna.
2. Standa vörð um innra starf grunn- og leikskóla.
3. Vönduð ákvarðanataka virkt fjárhagseftirlit.
4. Öflug félagsþjónusta á erfiðum tímum.
5. Fjölskylduvænt umhverfi.
Með aukinni markaðssetningu viljum við kynna sveitarfélagið sem vænlegan kost til atvinnuuppbyggingar og til búsetu. Borgarbyggð hefur marga góða kosti og þeim verður að koma á framfæri þannig að eftir verði tekið.
Engan frekari afslátt má gefa á innra starfi grunnskólanna. Nú þegar hefur verið sparað verulega í þeim málaflokki eins og flestum öðrum. Lengra verður vart gengið nema tekin sé veruleg áhætta á að börnin okkar verði á eftir.
Í hverjum mánuði verður að taka margar ákvarðanir er snerta framtíð íbúa, atvinnu og stofnana. Nú sem aldrei fyrr verður að vanda þessa ákvarðanatöku og forgangsraða. Samhlið verður að fylgja virkt fjárhagseftirlit til að tryggja stöðugleika.
Félagsþjónustan er stór hluti þess öryggisnets sem sveitarfélagið veitir þegnum sínum. Minnstur samdráttur hefur verið þar á þessum erfiðu tímum enda nauðsynlegt að vakta velferð íbúa og tryggja þeim lágmarks félagslegan og fjárhagslegan stuðning.
Fjölskylduvænt umhverfi er víðtækt hugtak og tekur á innra og ytra umhverfi, hvort sem eru stofnanir, umgjörð eða umhverfið sjálft. Öryggistilfinning íbúa markaðst af því að þessi umgjörð sé í lagi.
Kæru vinir. Það er von mín að við eigum samleið í næstu kosningum.
Að öðru leyti má sjá stefnuskrá flokksins á meðfylgjandi slóð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)