Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
29.5.2010 | 08:38
Morgunstund...þið vitið hvað
Vaknaði frekar snemma, úthvíldur og tilbúin í átök dagsins. Hestarnir voru fegnir að komast út og fá morgungjöfina í gerðinu. Ótrúlega ömurleg þessi hestapest.
Rölti í garðinn og sá að kartöflugrösin eru farin að kíkja vel upp úr moldinni. Það er ég viss um að er gott merki fyrir úrslit dagsins i dag. Ef þú vandar þig þá uppskerðu. Við vönduðum okkur Framsóknarmenn - og vonandi verða margir til að finna samleið með okkur í dag og næstu árin.
Kosningabaráttan var mun rólegri en fyrir fjórum árum. Hún var ekki nærri eins persónuleg og kjósendur vildu gjarnan tala við okkur frambjóðendur. Hins vegar finnur maður líka ótrú. Get vel skilið að sumir eru búnir að fá nóg af okkur. Nú verðum við stjórnmálamenn að standa okkur, hvar sem við stöndum í flokki.
Sigurbjörg í Raunanesi á afmæli í dag og bauð öllum vinum sínum með á Hafnarfjallið. Vonandi fara margir með henni á toppinn. Ég verð að vera heima - enda stefni ég á enn hærri tind í dag. Ég ætla að klífa kosningatindinn og vonandi mun fáni Framsóknarflokksins blakta sem aldrei fyrr á þeim toppi.
Kæru lesendur. Vona að þið hugsið fallega til okkar Framsóknarmanna í dag. Í hjörtum okkar er von og trú. Þó peningar séu af skornum skammti þá höfum við þó tvær hendur til að láta óskir okkar rætast. Við erum tilbúnir.
KOMA SVO.....
29.5.2010 | 08:27
Grein úr Skessuhorni.
Eftirfarandi grein birtist í Skessuhorni um miðja viku,
Framsóknarflokkurinn í Borgarbyggð lítur björtum augum til framtíðar. Borgarbyggð á alla möguleika að verða til fyrirmyndar með réttri forgangsröðun og góðri nýtingu tækifæra. Fortíðin er á margan hátt grimm og þó það henti Framsóknarflokknum vel að velta sér upp úr mistökum annarra flokka þá skiptir það íbúa mestu máli að kjósa flokk sem hefur skýra sýn til framtíðar og er tilbúinn að taka á með íbúum, fyrirtækjum og stofnunum við uppbyggingu.
|
Framsóknarflokkurinn hefur lýst því hvernig með aukinni markaðssetningu megi laða hingað fólk og fyrirtæki, hvernig vanda skuli ákvarðanatöku og nauðsyn þess að standa vörð um starf grunn- og leikskóla. Þess til viðbótar vill Framsóknarflokkurinn leggja áherslu á öfluga félagsþjónustu á erfiðum tíma og fjölskylduvænt umhverfi. Félagsþjónusta og fjölskylduvænt umhverfi eru í raun af sama meiði. Félagslegt öryggisnet sveitarfélagsins er ætlað til að aðstoða þá sem af einhverjum ástæðum verða undir og geta ekki án aðstoðar tekið virkan þátt í leik og starfi. Á sama hátt er fjölskylduvænt umhverfi skilgreining á því að íbúar óttist ekki á erfiðum tímum að grunnþjónustan bresti þó hún e.t.v. breytist. Hér verður alltaf góður grunnskóli, hér verður alltaf góður leikskóli og það verður áfram félagsþjónusta við aldraða. Það að íbúar séu öruggir um að hafa þessa grunnþætti í lagi veitir ákveðna lífsfyllingu, nóg er nú samt. Fulltrúar Framsóknarflokksins munu fara fyrir í jákvæðum málflutningi á næstu árum. Við munum byggja upp. Við munum vinna á fjármálum sveitarfélagsins. Við munum glæða lífið gleði og von með því að virkja það góða. Fulltrúar Framsóknarflokksins lifa eftir því að sá sem vill, finnur leið, sá sem vill ekki, finnur afsökun.. Framsóknarflokkurinn vill vinna með þér við að byggja betra samfélag. |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2010 kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2010 | 18:28
Næstu fjögur árin.
Á morgun ræðst hverjir skipa sveitarstjórn Borgarbyggðar næstu fjögur árin. Ánægjulega margir vilja komast í þessi níu sæti sem í boði eru. Fimm listar eru í kjöri og allir þétt skipaðir góðu fólki sem vill vel.
Ég skipa þriðja sæti á lista Framsóknarflokksins og tvísýnt hvort ég haldi sæti mínu í sveitarstjórn. Ég er óþreyttur og tel mig hafa mikið að gefa til uppbyggingar í samfélaginu.
Ég átti góð en erfið fjögur ár í hreppsnefnd Borgarfjarðarsveitar. Við unnum okkur út úr erfiðleikum og skiluðum góði búi inn í sameinað sveitarfélag.
Síðustu fjögur árin hef ég unnið heilt í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Ekki alltaf farið troðnar slóðir og verið óhræddur við að gagnrýna. Jafnframt hef ég einn sveitarstjórnarfulltrúa séð ástæðu til að biðja afsökunar á ákveðnum ákvörðunum.
Nú eru erfiðir tímar þar sem nauðsynlegt er að saman fari ábyrgð, reynsla og þor. Ég hef töluvert af þessu öllu og er reiðubúin að nýta það til uppbyggingar í okkar góða sveitarfélagi.
Ágæti íbúi Borgarbyggðar. Kann ekki að vera að þú og Framsóknarflokkurinn eigið samleið á morgun? Með því gætir þú lagt mér lið í erfiðri baráttu á morgun.
Vinnum saman að því að byggja betra samfélag.
24.5.2010 | 19:38
Persónur og leikendur
Ingimundur veit manna best að Framsóknarflokkurinn hefur ekki verið í meirihluta hér í sveitarfélaginu nema mjög lítinn tíma á þessu kjörtímabili. Hálft árið 2009 í þjóðstjórn og frá því í janúar á þessu ári með Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylking og Vinstri grænir voru hér við völd á dögum víns og rósa og því merkilegt að Ingimundur, eins og hann fylgist vel með, vilji koma þeim heiðri á Framsóknarflokkin og þá helst mig persónulega. Sjálfur veit hann miklu betur. Hann veit líka að síðan Framsóknarflokkurinn kom í meirihluta hefur staða sveitarsjóðs batnað verulega, en það hefur ekki verið sársaukalaust.
Ég velti einnig fyrir mér hvers vegna Ingimundur vill persónugera pólitíkina. Hér eru vissulega persónur í kjöri fyrir ákveðin framboð. En hvaða framboðum hentar best að komast frá ábyrgð þessa kjörtímabils og fela sig baka við persónur og leikendur? Ekki Framsóknarflokknum, svo mikið er víst.
16.5.2010 | 21:57
Sparisjóðurinn
Það vakti athygli nú nýlega þegar eitt stjórnmálaaflið í Borgarbyggð tók eftir því að Sparisjóðurinn var allur.
Ég fór þess vegna að rifja upp þetta mál og þá baráttu sem var háð til að fá upplýsingar um hvað raunverulega gerðist. Þær komu auðvitað aldrei. Var þar í raun tvennt verst. Annarsvegar óhæfir stjórnendur sem skýldu sér bak við bankaleynd og svo hinsvegar tregða fulltrúa annarra flokka til að vinna með mér að málinu.
Flestir kunna þessa sögu. Fyrir hina má rifja upp.
1. 19. júní 2008 er byggðaráð kallað til neyðarfundar í höfuðstöðvum Sparisjóðsins. Þar taka á móti okkur sparisjóðsstjóri og formaður stjórnar. Þar er okkur tilkynnt að Fjármálaeftirlitið hafi gert athugasemdir við stöðu sjóðsins. Á þeim fundi gerði ég um það tillögu að sparisjóðsstjóri og formaður stjórnar yrðu settir til hliðar og aðrir aðilar fengnir til að stýra sjóðnum. Því var hafnað því miður.
2. Næstu daga á eftir voru sífelld fundahöld um hvað bæri að gera. Flestar upplýsingar og stöðuskýrslur úr sjóðnum reyndust marklaus plögg. Ráðleysið var algert
3. Meirihluti byggðaráðs krafðist algers trúnaðar um málið og skákuðu í því skjóli að annars gætu viðskiptamenn gert áhlaup á sjóðinn. Ég gagnrýndi það verulega og hótaði að lokum að brjóta trúnað ef sveitarstjórn öll yrði ekki kölluð að málinu. Það gerðist fyrst þegar töluvert var liðið á júlí.
4. Frá upphafi talaði ég um að fá óháða aðila til ráðgjafar en því var hafnað.
5. Öllum hugmyndum um formlega rannsókn var einnig hafnað. Þar voru notuð ýmis rök t.d. trúnaður, kostnaður og fl.
Í fundargerðum byggðaráðs og sveitarstjórnar frá sumrinu 2008 má lesa um þetta mál og skora ég á áhugasama að kynna sér þær fundargerðir. Ætla í lokin að birta hluta af fundargerð byggðaráðs frá 6. ágúst 2008 þar sem fjallað er um SPM.
" Málefni SPMÁ fundinn mætti Kristinn Bjarnason lögfræðingur til viðræðna um málefni Sparisjóðs Mýrasýslu.
Sveinbjörn lagði fram svohljóðandi bókun:
Sparisjóðir, ekki síst á landsbyggðinni eiga í verulegum vandræðum vegna endurfjármögnunar. Sparisjóðir hafa gengt veigamiklu hlutverki á sínum svæðum og eru í byggðalegu tilliti mjög mikilvægir. Byggðarráð Borgarbyggðar beinir því til ríkisstjórnarinnar að nú þegar verði gripið til aðgerða til að auðvelda sparisjóðum endurfjármögnun á svipaðan hátt og Íbúðalánasjóði er ætlað að endurfjármagna lán til íbúðarkaupa.
Bjarki og Finnbogi lögðu fram svohljóðandi bókun:
Höfnum ofangreindri tillögu með hliðsjón af því að það er ekki á verksviði ríkisvaldsins að styrkja einstaka fjármálastofnanir.
Sveinbjörn lagði fram svohljóðandi bókun:
Öllum trúnaði vegna upplýsinga er varðar sparisjóðinn verði aflétt. Þar sem öllum má nú vera ljóst að SPM á í vandræðum og fyrir liggja tillögur um aukið stofnfé ber sveitarstjórnarfulltrúum skylda til að ræða þetta mál við sína umbjóðendur án nokkurra undanbragða. Það er mitt mat að trúnaður þjóni ekki neinum tilgangi lengur og því beri að aflétta honum.
Bjarki og Finnbogi lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fram til þessa hefur verið nauðsynlegt að halda ákveðinn trúnað vegna stöðu SPM til að verja hagsmuni sveitarfélagsins og viðskiptavina hans. Í ljósi stöðu viðræðna við Kaupþing samþykkja undirritaðir þessa tillögu.
Sveinbjörn lagði fram svohljóðandi bókun:
Ástæða er til að gagnrýna vinnubrögð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Borgarlista eftir að ljós voru vandræði SPM. Hér er um veruleg verðmæti að ræða og því mætti ætla að ástæða hefði verið til að vanda sérstaklega til verka. Sérstaklega er gagnrýnt að:
engin óháður aðili hefur verið fenginn til aðmeta stöðu sjóðsins og gera tillögur að framtíðarfyrirkomulagi
engin skrifleg gögn hafa verið lögð fyrir sveitarstjórn eða byggðarráð þannig að þær stofnanir geti byggt ákvarðanatöku sína á faglegum staðreyndum
vegna trúnaðarskyldu hafa fulltrúar í þessum ráðum ekki getað leitað sér sérfræðiaðstoðar á eigin vegum
enn hefur enginn fundur verið haldinn með endurskoðanda SPM þrátt fyrir skriflega beiðni þar um
sveitarstjórn var haldið frá málinu í upphafi og það var einungis fyrir þrábeiðni mína og skriflega tillögu að sveitarstjórn var kynnt málið
fulltrúaráð SPM var ekki kallað saman fyrr til að fjalla um breytingar á rekstri sjóðsins
Bjarki og Finnbogi lögðu fram svohljóðandi bókun:
Byggðarráð Borgarbyggðar hefur unnið náið saman í þessu stóra máli sem snertir samfélag okkar verulega. Hagur viðskiptavina sjóðsins, starfsfólks hans og sveitarfélagsins hefur verið hafður að leiðarljósi í þeirri vinnu og þar hafa byggðarráðsmenn allir búið yfir og haft aðgang að sömu upplýsingum. Byggðarráði var kynntur rekstrarvandi SPM þann 19. júní s.l. og hefur síðan verið unnið að því að finna leið til að endurfjármagna sjóðinn. Undirritaðir telja að samkomulag það við Kaupþing sem kynnt hefur verið sé til þess fallið að tryggja áframhaldandi rekstur sjóðsins og þá hagsmuni sem menn einsettu sér að verja í upphafi. Því er alfarið hafnað að ekki hafi verið vandað til verka í þeim viðræðum sem staðið hafa síðan staðan var kynnt byggðarráði.
Sveinbjörn lagði fram svohljóðandi bókun:
Stend við þá gagnrýni sem ég set fram í bókuninni en vil þó taka fram í ljósi bókunar meirihlutans að gagnrýni mín beinist ekki að Kaupþingi.
Sveinbjörn lagði fram svohljóðandi bókun:
Ég legg til að þeim fulltrúum í sveitarstjórn Borgarbyggðar sem ekki eiga sæti í fulltrúaráði SPM verði boðið að sitja fund fulltrúaráðsins þann 15. ágúst með málfrelsi og tillögurétti.
Bjarki og Finnbogi lögðu fram svohljóðandi bókun:
Samþykkjum að beina þeim tilmælum til stjórnar að þeir aðilar í sveitarstjórn Borgarbyggðar sem ekki eiga sæti í fulltrúaráði SPM fái að sitja fund fulltrúaráðsins.Sveinbjörn lagði fram svohljóðandi tillögu:
Legg til að öll gögn er varða stöðu sjóðsins og framtíðartilhögun verði send óháðum aðila og hann fenginn til að fara yfir þau. Niðurstöður verði lagðar fyrir ekki síðar en á sveitarstjórnarfundi þann 14. ágúst n.k.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Samþykkt að halda opinn íbúafund um málefni Sparisjóðsins. Nánari tímasetning liggur ekki fyrir."
15.5.2010 | 16:42
Morgunkaffi og Raftar
Stundum eru það litlu hlutirnir sem gefa lífinu gildi. Ég bauð í morgunkaffi hér í Hvannatúni og fékk fullt af gestum. Það gladdi okkur Vildísi. Sumir komu til að sýna stuðning og aðrir til að ræða ákveðin mál og forvitnast um hvert flokkurinn ætlaði sér. Mjög gaman þegar það gerist. Eftir stendur minning um góðan morgun og gott fólk.
Þeir færðust meira í fang Raftarnir í Borgarnesi í dag. Stórhátíð í og við menntaskólann. Mjög mikið af fólki og ótrúlega flott hjól. Ég hafði þó mest gaman að því að sjá fólkið. Fullt af venjulegu fólki hafði gjörbreytt um svip. Virðulegustu menn og konur komin í þykk leðurdress með allskyns varnartólum þannig að allir sýnast helmingi herðabreiðari en þeir eru vanalega. Féll alveg fyrir þessu. Ákvað að drífa mig heim áður en ég seldi hestana og keypti hjól....og leður dress.
Til hamingju Raftar með glæsilegan dag.
14.5.2010 | 13:03
Kosningaloforð!!!
Það stóð ekki á viðbrögðum við færslu minni um að vera sjálfum sér samkvæmur. Ég er látinn heyra það að við séum allir eins þessi stjórnmálamenn og flokkar og engu sé treystandi. Það er napurt að fá þessa falleinkunn. Átta mig svo á því að þessi söngur kemur fyrst og fremst úr kór þeirra framboða sem settu sveitarfélagið á hausinn og það hentar þeim núna að gera lítið úr þeim sem reyna að vera heiðarlegir við kjósendur, BÆÐI FYRIR OG EFTIR KOSNINGAR. Leyfi mér að taka smá dæmi úr síðustu kosningabaráttu.
Leikskólamál voru þá mjög í umræðunni. Við Framsóknarmenn fórum vel yfir þann málaflokk. Okkar niðurstaða var sú að í ljósi þess að við ættum eftir að klára Ugluklett og byggja nýjan Andabæ þá væri ekki svigrúm til að lækka leikskólagjöld og í raun frekar líkur á að það þyrfti að hækka gjöldin. Þess til viðbótar vildum við taka inn börn frá 18 mánaða aldri, sem er frábært þjónustustig. Þetta var okkar stefna.
Samfylking og vinstri grænir lofuðu gjaldfrjálsum leikskóla. Orðrétt sagði í stefnuskránni. ..."Stefnt skal að því að tryggja öllum 2-5 ára börnum leikskólapláss án endurgjalds."... Aldrei á síðasta kjörtímabili var gerð hin minnsta tilraun til að standa við þetta loforð, aldrei. Samt var á þessum tíma mesta "gullaldarskeið" sveitarfélaga á Íslandi.
Sjálfstæðisflokkurinn setti í stefnuskrá. "Við ætlum að lækka leikskólagjöld". Urðu einhverjir foreldrar varir við það???
Niðurstaðan varð sú að við kláruðum leikskólana, tókum inn börn frá 18 mánaða aldri (stundum yngri) og lækkuðum gjöldin ekki neitt, hvað þá að leikskólarnir yrðu gjaldfrjálsir.
Því er eðlilegt að spyrja. Hvað eru margir foreldrar sem létu glepjast af fagurgalanum og eru enn að bíða eftir gjaldfrjálsum leikskóla??
14.5.2010 | 10:35
Að vera sjálfur sér samkvæmur!!!
Mér finnst alltaf fróðlegt að lesa stefnuskrár framboða. Hér í Borgarbyggð hafa þrjú framboð birt sína stefnu og því ekki enn hægt að gera alsherjar úttekt.
Við Framsóknarmenn förum venju fremur varlega í þetta sinn. Fjárhagur sveitarfélagsins eftir 10 ára valdatíma Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Samfylkingar er með þeim hætti að nú róa menn lífróður undir vökulu auga "eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga".
Síðasta árið hjá sveitarstjórn hefur farið í mjög sársaukafullan niðurskurð t.d í málefnum leikskóla. Opnunartími hefur verið skertur og starfsmannafundir færðir á "vinnutíma". Auðvitað hefur þetta valdið vandræðum, hjá starfsfólki, hjá foreldrum og e.t.v. hjá börnum.
Í stefnuskrá Samfylkingar má finna eftirfarandi: "Við viljum lengja opnunartíma leikskóla og styðja þannig betur við foreldra á vinnumarkaði. Sá kostnaðarauki sem slíkt felur í sér er lítill í samanburði við þann kostnað sem foreldrar þurfa annars að bera vegna styttri opnunartíma."
Þetta verður að teljast mjög fallegt kosningaloforð. Vandinn er bara sá að það er ekki gerð grein fyrir því hvernig á að fjármagna það. Það er líka merkilegt fyrir þær hluta sakir að fulltrúar Samfylkingarinnar í sveitarstjórn samþykktu þessar breytingarán sérstakra athugasemda. Eins og aðrir fulltrúar gerðu þeir það væntanlga af illri nauðsyn.
Þór Þorsteinsson frambjóðandi Samfylkingarinnar skrifar grein í Skessuhornið í þessari viku. Þar er fjallað um fræðslumál (mest þó grunnskólamál). Í greininni stendur orðrétt. "Í ljósi fjárhagsstöðu sveitarfélagsins væri það óráðlegt af nokkru framboði að lofa stórauknu fjármagni til fræðslumála næstu ár og því verður það að vera okkar verkefni að laga okkur að nýjum veruleika".
Með vísan í ofanritað finnst mér líklegast, að Þór sé að beina þessum orðum sínum sérstaklega til meðframbjóðenda sinna hjá Samfylkingunni.
Í stjórnmálum er kallað eftir heiðarleika. Samfylkingin í Borgarbyggð kallar eftir ýmsum rannsóknum á eigin gerðum s.s. í málefnum Sparisjóðsins sáluga og Menntaborgar. Ef það á að taka mark á þeim orðum verða frambjóðendur að vera sjálfum sér samkvæmir. Kosningaloforðum á að fylgja verðmiði og það þarf að gera grein fyrir hvernig þau verða greidd.
Fyrr verða menn ekki samkvæmir sjálfum sér. Fyrr verða þeir ekki marktækir í umræðu.
12.5.2010 | 23:04
Stefnuskráin.
10.5.2010 | 15:03
Hugleiðing um Landbúnað
Ég naut þess heiðurs að vera beðinn um að skrifa hugleiðingu um landbúnað í Smalann, rit sauðfjárbænda í Borgarfirði. Leyfi mér að láta þessa grein fljóta hér með enda er þar tæpt á ýmsu sem gert hefur verið og ýmsu sem hægt er að gera.
Framtíðarhorfur landbúnaðar í Borgarfjarðarhéraði.Fleyg eru orð Eiríks Rauða er hann lýsti landkostum Grænlands með þeim orðum að..þar drýpur smjör af hverju strái. Hann var auðvitað að ljúga. Það eru hins vegar bæði gömul og ný sannindi að Borgarfjarðarhérað er ákaflega vel fallið til landbúnaðar og búsetu, hvort sem litið er til búfjár- eða jarðræktar, jarðgæða, hlunninda, náttúrfegurðar eða menningar.
Íslenskur landbúnaður hefur breyst mikið á undanförnum áratugum og kemur margt til. Tæknivæðing auðveldar stærri einingar. Afurðir eftir grip hafa aukist. Landbúnaðurinn hefur tekið við nýjum viðfangsefnum og bændur gera sömu kröfur og aðrir um afkomu og tómstundir. Einnig er nauðsynlegt að nefna að samkeppni við aðrar vörur hefur vaxið mikið og við því varð að bregðast. Raunar er mjög merkilegt, miðað við breytingar í því sem við köllum hefðbundin búskap, að enn skuli vera jafn mikið líf og gróska í íslenskum sveitum .
Á þeim erfiðu tímum sem undanfarið hafa dunið yfir er mjög ánægjulegt að heyra hina jákvæðu rödd til handa íslenskum landbúnaði. Oft þurfa menn spark til að meta hið sjálfsagða. Það var ekkert talið sjálfsagt að framleiða hér matvæli þegar þau fengust á lægra verði annarsstaðar. Nú hafa þær raddir hljóðnað. Nú skilja menn nauðsyn þess að vera sjálfum sér nægur. Og ekki síður að vara sé holl og framleidd við bestu aðstæður. Í hreinni og heilnæmri náttúru þar sem vatnið streymir. Hreint og gott vatn, eins sjálfsagt og það þykir hér á landi, er takmörkuð auðlind í heiminum, munum það.
Borfirskir bændur hafa verið duglegir að tileinka sér nýjungar og oft verið frumkvöðlar. Ferðaþjónustan í Húsafelli hefur orðið mörgum fyrirmynd og þannig er um fleira. Nýting jarðhita á vöggu sína í Borgarfirði hvað talið er. Veiðar í ám og vötnum er veruleg búbót og borgfirskir veiðibændur ruddu brautina, fengu hingað forríka útlendinga og skipulögðu starfsemina þannig að litið er til hennar í öðrum löndum. Það fer kannski hljótt en vöxtur trjáa er víst með allra mesta móti í Borgarfirði, það sýna tölur úr Skorradal.
Náttúran og menningin verða í framtíðinni vaxandi viðfangsefni landbúnaðarins. Í því felast miklir möguleikar, sem við höfum þegar upplifað. Við sjáum það í Reykholti, við sjáum það í Húsafelli og við sjáum það á Bifröst og við sjáum það víðar. Möguleikarnir eru óþrjótandi ef að þeim er gáð og að þeim hlúð. Ég er bjartsýnn fyrir hönd fjölbreytts landbúnaðar í Borgarfirði. Við munum upplifa breytingar en lítum á þær sem tækifæri. Við höfum gert það áður og eigum að gera það aftur.
Fyrir rúmum hundrað árum sá Hannes Hafstein mörg tækifæri fyrir íslenska þjóð, ekki síst í landbúnaðinum. Rifjum upp eitt erindi og veltum því fyrir okkur hvort þetta ljóð hafi ekki getað verið ort í gær eða í dag og þá af íslenskum bónda sem drukkið hefur í sig menninguna og kraftinn sem fylgir hinni íslensku sveit.
Sú kemur tíð er sárin foldar gróa,sveitirnar fyllast, akrar hylja móa.
Brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,
menningin vex í lundi nýrra skóga.
Með kveðju, Sveinbjörn Eyjólfsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)