Færsluflokkur: Bloggar
8.5.2006 | 09:18
Gæsilegt stjórnsýsluhús í Borgarnesi
Góðan daginn sveitungar.
Ég átti ánægjulega stund með mörgum sveitungum á laugardaginn síðasta þegar vígt var nýtt stjórnsýsluhús í Borgarnesi. Ljóst er að með hini nýju aðstöðu verður mun rýmra um alla starfsemi og ekki síst má taka vel á móti þeim sem erindi eiga við stjórnsýsluna. Ný og/eða bætt aðstaða verður fólki hvatning til enn betri verka og ég trúi því að það gerist í okkar nýja húsi.
Samhliða vígslu var opnuð ljósmyndasýning úr safni athafnamannsins Sigvalda Arasonar sem hefur komið að flestum stærstu verkefnum í Borgarnesi undanfarin 50 ár. Ég hvet sem flesta til að skoða þessa sýningu því hún gefur gott yfirlit yfir hvað hefur breyst í Borgarnesi undanfarna áratugi.
Þá afhentu börn Halldórs E. Sigurðssonar fyrrum ráðherra og alþingismanns og umfram allt fyrsta sveitarstjóra í Borgarnesi málverk af föður sínum. Málverkinu hefur verið valinn staður í móttöku hússins. Á það vel við að Halldór vaki yfir þeim sem þar koma og þeim sem þar vinna. Þannig var Halldór alla tíð, vakinn og sofinn yfir velferð Borgnesinga.
Þegar ég dvaldi í húsinu og lét mig dreyma undir seiðandi tónlist frá Gunnari Ringsted og félaga hans þá gerði ég mér grein fyrir að því fylgir mikil ábyrgð að stjórna nýju sveitarfélagi. Þá ábyrgð er ég tilbúinn að axla og vona að Framsóknarflokkurinn fái til þess nægan stuðning
Kveðja Sveinbjörn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2006 | 09:04
Þjónusta og fleira fólk!
Nú líður að því að til verði nýtt sveitarfélag hér í Borgarfirði þegar Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppur og Kolbeinsstaðahreppur sameinast. Sveitarfélagið hefur alla burði til að verða sterkt og þjónusta íbúa sína vel, svo vel að íbúum muni fjölga. Gerist það munu ný fyrirtæki líta til þess að byggja hér upp framtíð sína. Þetta höfum við séð gerast á öðrum stöðum á landinu og þetta eigum við að láta gerast hér. Til þess að þetta takist þarf ný sveitarstjórn að vera meðvituð um að hér er verið að sameina ólík samfélög en það þarf að gæta þess vel að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Um leið og við eigum að varðveita fjölbreytileikann og njóta góðs af honum s.s. sterkum þéttbýliskjarna og blómlegum sveitum og háskólaþorpum þá þarf öll þjónusta að taka mið af þessum fjölbreytileika. Hún á ekki að vera misjöfn heldur sambærileg. Reglur um þjónustu og aðstoð þurfa að vera skýrar en samt að taka mið af ólíku samfélagi. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja að hjörtu íbúanna slái í takt og þeir finni og heyri þann samhljóm sem hverju samfélagi er nauðsynlegur. Dæmi um misjafnt þjónustustig í hinu nýja sveitarfélagi er í leikskólamálum. Íbúar Borgarfjarðarsveitar eru vanir því að koma börnum sínum á leikskóla við 18 mánaða aldur og oft eru börnin yngri þegar þau koma á leikskóla. Þessu eru menn ekki vanir í Borgarbyggð þar sem því miður hefur þekkst biðlisti fyrir tveggja ára börn. Framsóknarmenn hafa metnað til að viðhalda þjónustustiginu eins og það er best. Því stefnum við ótrauðir á að tryggja leikskólarými fyrir öll börn, átján mánaða og eldri.
Kveðja Sveinbjörn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2006 | 08:31
Stofnun menntaskóla í Borgrfirði
Kæru vinir.
Í dag 4. maí verður hátíðardagur í Borgarfirði. Þá verður verður stofnað ehf Menntaskóli Borgarfjarðar, undirrituð viljayfirlýsing um starfsemina og fyrsta skóflustunga tekin. Reiknað er með að starfsemin geti hafist haustið 2007 og þá komi fyrstu nemar til náms við skólann.
Menntaskóli Borgarfjarðar verður einkaskóli, sem er kannski ekki það sem allir vildu, en nú er ekkert annað að gera en vinna vel að stofnun hans og vexti. Ekki er spurning að skólinn bætir lífskjör í Borgarfirði og gleðilegt er til að hugsa að yngri dætur mínar tvær geti sótt framhaldsskóla án þess að flytja burt.
Þegar hugsað er til baka þá er ekki ýkja langt síðan að það störfuðu fimm framhaldsskólar í Borgarfirði. Nú stendur Landbúnaðarháskólinn svolítið einn eftir með sína ágætu bændadeild og ekki má gleyma frumgreinadeildinni á Bifröst. Aðrir hafa dáið drottni sínum, eins og svo margir aðrir framhaldsskólar á landsbyggðinni.
Þegar litið er til þess að svæðið bar fimm framahldsskóla þá ætti okkur ekki að verða skotaskuld úr því að reka einn með sæmilegri reisn. En það er undir okkur komið og því verðum við að styðja starfið með ráð og dáð. Það er m.a. hægt með því að leggja stofnfé til skólans og þar er engin upphæð of lítil því margt smátt gerir eitt stórt.
Hlutverk sveitafélagsins verður stórt við að tryggja gengi skólans á næstu árum. Þar má nefna nauðsyn þess að styðja við félagsstarf í skólanum því það verður eðlilega að byggja frá grunni. Hver kannast ekki við að fólk hafi valið hinn eða þennan framhaldsskóla vegna félagslífsins. Við búum ekki að þeirri sögu en við eigum að búa hana til og gera glæsilega. Við getum líka byggt við íþróttaaðstöðuna í Borgarnesi og það munum við gera.
Ótalmargt má nefna í þessu samhengi en nú skulum við njóta stundarinnar og gleðjast um leið og við gerum öll okkar til að tryggja framtíð skólans.
Góð kveðja Sveinbjörn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2006 | 08:26
Velkomin á bloggið mitt.
Sæl öllsömul.
Meðan dætur mínar blogga rétt eins og drekka vatn skal það viðurkennt að í mér er kvíði. Þetta er samskiptamáti sem mér er framandi en um leið spennandi. Og nú er að duga eða drepast. Sveitarstjórnarkosningar sem framundan eru kalla á að hafa öll spjót úti og það skal reynt.
Takist mér þokkalega upp við tæknina þá mun ég halda hér úti reglulegum skrifum um störf, menn og málefni og skíra þannig hug minn til þeirra dægurmála sem hæst fara í umræðunni um leið og ég færi ykkur sýn mína til framtíðar.
Þá er bara að vona að einhver líti inn og lesi bloggið og láti sannfærast. þá er möguleiki að leggja fram spurningar t.d. á netfangið diddi@emax.is og þá skal ég svara.
Líði okkur svo öllum sem best, kveðja Sveinbjörn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)