10.5.2010 | 08:49
Sveitarstjórnarkosningar
Ágætu vinir.
Nú styttist verulega í sveitarstjórnarkosningar. Framsóknarmenn eru tilbúnir og hafa lagt fram stefnuskrá. Eins og áður er sú stefnuskrá raunsæ og tekur mið af aðstæðum.
Framsóknarmenn leggja mesta áherslu á 5 liði en þeir eru:
1. Aukin markaðssetning aukin atvinna.
2. Standa vörð um innra starf grunn- og leikskóla.
3. Vönduð ákvarðanataka virkt fjárhagseftirlit.
4. Öflug félagsþjónusta á erfiðum tímum.
5. Fjölskylduvænt umhverfi.
Með aukinni markaðssetningu viljum við kynna sveitarfélagið sem vænlegan kost til atvinnuuppbyggingar og til búsetu. Borgarbyggð hefur marga góða kosti og þeim verður að koma á framfæri þannig að eftir verði tekið.
Engan frekari afslátt má gefa á innra starfi grunnskólanna. Nú þegar hefur verið sparað verulega í þeim málaflokki eins og flestum öðrum. Lengra verður vart gengið nema tekin sé veruleg áhætta á að börnin okkar verði á eftir.
Í hverjum mánuði verður að taka margar ákvarðanir er snerta framtíð íbúa, atvinnu og stofnana. Nú sem aldrei fyrr verður að vanda þessa ákvarðanatöku og forgangsraða. Samhlið verður að fylgja virkt fjárhagseftirlit til að tryggja stöðugleika.
Félagsþjónustan er stór hluti þess öryggisnets sem sveitarfélagið veitir þegnum sínum. Minnstur samdráttur hefur verið þar á þessum erfiðu tímum enda nauðsynlegt að vakta velferð íbúa og tryggja þeim lágmarks félagslegan og fjárhagslegan stuðning.
Fjölskylduvænt umhverfi er víðtækt hugtak og tekur á innra og ytra umhverfi, hvort sem eru stofnanir, umgjörð eða umhverfið sjálft. Öryggistilfinning íbúa markaðst af því að þessi umgjörð sé í lagi.
Kæru vinir. Það er von mín að við eigum samleið í næstu kosningum.
Að öðru leyti má sjá stefnuskrá flokksins á meðfylgjandi slóð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2009 | 22:19
Á leynilista DV, tralalala
Nú er ég allt að því stoltur, nei reyndar verulega stoltur. Ég komst á leynilista DV yfir sérstaka varnarsveit Framsóknarflokksins í bloggheimum.
Sem sannur félagshyggju- og samvinnumaður stend ég auðvitað vörð um grunngildi Framsóknarflokksins. En að ég væri tilnefndur í leyniflokkinn kemur mér á óvart. Ég hef aldrei farið leynt með skoðanir mínar. Ekki heldur ef ég hef ekki verið ánægður með forystuna. Þannig verja Framsóknarmenn best sínar hugsjónir og gildi.
http://www.dv.is/frettir/2009/4/22/leyniskjol-vinir-framsoknar-i-bloggheimum/
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2009 | 17:32
Gylfi Arnbjörnsson í vondum málum.
Hugur minn er hjá vinkonu minni Vigdísi Hauksdóttur. Hún hefur af krafti barist áfram og náð langþráðu takmarki hvað varðar menntun, starf og frama í stjórnmálum.
Þá eru kynntar til leiks nýjar áherslur Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ. Reglur sem einungis bitna á Vigdísi vinkonu minni en ekki öðrum sem ætla sér fram i pólitík og tengjast verkalýðsbaráttu. Ótrúleg framkoma gagnvart Vigdísi.
Gylfi Arnbjörnsson er maður að minni. Hann ætti að segja af sér - ekki seinna en strax.
Er framboð Vigdísar Hauksdóttur virkilega mesti glæpur verkalýðshreyfingarinnar þessa dagana?
Spyr sá sem ekki veit
14.3.2009 | 12:39
Heiðarleg barátta
Úrslit urðu nokkuð skýr í póstkosningunni. Gunnar Bragi hlaut afgerandi kosningu í fyrsta sætið sem er mjög gott veganesti fyrir hann og flokkinn í baráttunni sem framundan er.
Guðmundur Steingrímsson fær fína útkomu. Það er ekki hver sem er sem stekkur inn í heilagt vígi Framsóknarmanna og nær að hrífa menn með sér eins og hann gerði. Spái vel fyrir honum í framtíðinni.
Sindri er einn af þessum blindöruggu mönnum sem lítt fær haggað. Stöðugt að eflast í sínu starfi og hefur á mörgum stöðum verið trúað fyrir verkefnum. Hann verður drjúgur í baráttu og starfi.
Elín er eins og sagt var um Steingrím í gamla daga, "kletturinn í hafinu". Vinnur vel að sínu og er hörkudugleg. Það er ómetanlegur eiginleiki.
Höllu Signý þekki ég minnst. Hún var vösk á fundunum og hennar leið er bara upp á við.
En í þessu prófkjöri eins og öðrum verða menn að bíta í það súra epli að ná ekki öllu sem stefnt er að. Ég vil hins vegar þakka frambjóðendum, öllum sem einum, fyrir dregnilega baráttu. Hún var heiðarleg og skemmtileg eins og ég upplifði hana. Við í kjörnefnd áttum mjög gott samstarf við alla frambjóðendur, sem var mjög gott en ekki sjálfgefið.
Ég býð Kristinn H. velkominn í flokkinn eins og alla aðra. Nú þegar hann verður orðinn "venjulegur" Framsóknarmaður eins og ég og fleiri þá hlakka ég til að starfa með honum á fundum og þingum. Verð að viðurkenna að mér finnst sýn hans á mörg mál bæði skynsamleg og skemmtileg og fagna því að eiga von á honum þar sem við komum saman.
Mér finnst ekki ástæða til að gera lítið úr árangri hans í þessari kosningu. Miklu nær væri að skoða hvað hann fékk þó af atkvæðum því ég þykist vita að hann hafi lítt eða ekki beitt sér í baráttunni.
Gunnar Bragi sigraði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2009 | 08:45
Samvinnuhugsjónin
Ég var á skemmtilegum fundi í gærkvöldi. Nemendafélag Landbúnaðarháskóla Íslands stóð fyrir honum og þar mættu fulltrúar helstu þingflokka landsins.
Eygló Harðardóttir var fulltrúi okkar Framsóknarmanna. Í inngangsorðum gerði hún grein fyrir því hvernig hugsjónir flokksins samtengdust hugsjónum samvinnustefnunnar. Fyrir fáeinum mánuðum hefði slík framsaga verið púuð niður. En aldeilis ekki í gærkveldi. Fundinum líkaði þetta vel.
Það fundu aðrir framsögumenn og bæði Kjartan Ólafsson og Steingrímur J. reyndu að sýna fram á að Framsóknarflokkurinn hefði ekki einkarétt á þessum hugsjónum.
Öðruvísi mér áður brá.
22.1.2009 | 17:54
Á fullri ferð.....
Flokksþing okkar Framsóknarmanna var stórkostlegt. Grasrótin tók völdin. Í lok þingsins var ekki um að villast að hún hefur skýra sýn á stefnuna, stefnu samvinnu og félagshyggju. Nú eru okkur allir vegir færir.
Þjóðin tók eftir þessu og núna örfáum dögum eftir þingið mælist flokkurinn með 17% fylgi. Skoðanakannanir skal taka með fullri varúð en fyrr má nú vera. Úr 6% í 17%, sérdeilis glæsilegt og til hamingju félagar.
Sigmundur stimplar sig vel inn í pólitíkina. Tilboð okkar um að verja vinstri stjórn falli var flott. Það er ekki öllum gefið pólitískt nef.
Nú er bara að standa sig áfram. Tala ekki af sér og fara ekki í yfirboð sem ekki er hægt að standa við.
Áfram nú Framsóknarmenn. Nýtum byrinn og siglum seglum þöndum. Og gerum það á forsendum hins almenna flokksmanns, sem aldrei missti trúna á gömlu gildin.
31.12.2008 | 09:14
Formannsslagur
Það er ánægjulegt að sjá hverjir gefa kost á sér til formennsku Framsóknarflokksins. 5 karlar hafa lýst áhuga sínum en með fullri virðingu fyrir þeim öllum þá held ég að baráttan muni standa milli þeirra þriggja Höskuldar, Páls og Sigmundar. Þeirra bíður ekki auðvelt hlutverk. Flokkurinn hefur ekki náð vopnum sínum og þrátt fyrir ágæta vinnu erum við enn í skugga langs samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. Ég hef ekki séð forystuna hlaupast undan ábyrgð liðinna ára - sem mér finnst gott - en tilraunir hennar til að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina hafa ekki borið árangur - því miður.
Ég velti fyrir mér hvernig "formannsslagstríóið" er undir það búið að breyta ásýnd flokksins.
Höskuldur hefur að mínu viti kynnt sig vel sem þingmaður. Hann er ágætlega máli farinn og setur mál sitt fram á einfaldan og skýran hátt. Hann hefur eins og aðrir þingmenn þurft að leggja mikið á sig í litlum þingflokki og komist vel frá erfiðum málum í efnahagshruninu. Þá hefur hann báða fætur á jörðinni hvað varðar umræðu um EB og ég hef allavega ekki heyrt hann tjá sig á óábyrgan hátt um þau mál. Höskuldur virðist baráttumaður af lífi og sál og gott er að minnast þess að hann var kosningastjóri í norðausturkjördæmi árið 2003 þegar flokkurinn fékk 4 þingmenn. Þá nýtur Höskuldur þess umfram hina að "rödd hans heyrist á þingi" en ef ég man rétt taldi einn af fyrrum formönnum flokksins, Jón Sigurðsson, það nauðsynlegt. Ég ætla að halla mér að Höskuldi.
Páll hefur langa reynslu í pólitík og hefur verið flokksmaður lengi. Hann þekkir marga og margir þekkja hann. Það getur bæði verið kostur og galli ekki síst núna þegar menn þykjast sjá "óheppileg" tengsl í hverju horni. Löng reynsla sem aðstoðarmaður ráðherra og sem varaþingmaður mun nýtast Páli í baráttunni og sem formaður, verði hann kosinn. Ég hef skilið málflutning Páls á þann veg að hann sé mjög áhugasamur um að skoða vel kosti þess að Ísland gangi í EB. Á fundi hér í Borgarnesi rétt fyrir áramót fór hann yfir það mál og gerði það vel. En mér- sem forpokuðum andstæðingi EB aðildar - líkar ekki þegar flokksmenn gæla við þann klúbb. Páll er sá eini af frambjóðendunum sem hefur sent mér kynningarbækling. Það var gott framtak hjá honum. Hann ætlar sér sigur. Alltaf gott þegar menn einhenda sér af krafti í hlutina.
Sigmund Davíð þekki ég ekki neitt - bara alls ekkert. Fram hefur komið að hann hafi gengið í flokkinn rétt fyrir jól. Ég man eftir honum sem fréttamanni og á síðasta ári kom hann fram í umræðum um borgarmálefni og fleira. Það sem ég heyrði til hans var gott og vakti athylgi. Mér finnst Sigmundur brattur að ætla sér beint í formannsstól. Ég held að það sé ekki rétta leiðin. Mér finnst að menn þurfi að "sanna" sig í flokksstarfinu og sýna fyrir hvað menn standa. Hins vegar held ég að það sé rétt sem fram hefur komið að hann hafi fengið áskoranir frá mjög mörgum Framsóknarmanninum úr grasrótinni. Það er fólk sem vill breytingar - verulegar breytingar - og telur best að henda öllu hinu gamla og byrja upp á nýtt - með tvær hendur tómar - en hjartað fullt af hugsjónum samvinnu og félagshyggju. Þannig byrjaði þetta jú allt fyrir tæpum 100 árum.
Flokksþingið í janúar verður spennandi. Framtíð flokksins er full af tækifærum og okkar er að grípa þau og byggja upp. Einhverjir fara heim án þess að fá óskir sínar uppfylltar. Þá er bara að bíta í skjaldarrendur og halda baráttunni áfram - og þá fyrst og fremst út á við. Höfum nú einu sinni vit á því.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.11.2008 | 13:33
Guðlaugur Þór í "góðum" málum!!!
Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra er á margan hátt athyglisverður einstaklingur. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort margt sem hann lætur út sér sé mjög vel grundað.
Hann var í viðtali á Bylgjunni í morgun. þar var hann spurður um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu t.d. á Suðurnesjum.
Guðlaugur kannaðist ekki við neinn niðurskurð. Hins vegar kannaðist hann við að stofnunum hafi verið skrifað og þær beðnar um hugmyndir!!! Hugmyndir, já einmitt.
Er Guðlaugur að ýja að því að meðferð stofnana á fé sé með þeim hætti að það þurfi bara góðar hugmyndir og þá sé hægt að spara fé en viðhalda þjónustustigi????
Þetta verður Guðlaugur Þór að skýra betur fyrir þjóðinni - allavega fyrir mér.
24.11.2008 | 11:51
Framsókn og EB
Ég sat miðstjórnarfund flokksins um daginn. Er reyndar ekki fulltrúi í miðstjórn og gat því ekki samþykkt (eða hafnað) þær tillögur sem þar komu fram. Tillagan sem samþykkt var á fundinum var svohljóðandi:
"Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins haldinn 15. nóvember 2008 samþykkir að flokksþingi Framsóknarflokksins verði flýtt og það haldið í janúar 2009. Fyrir þingið verði lögð tillaga þess efnis að gengið verði til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
Afdráttarlaus afstaða stjórnmálaflokks til jafn mikilvægs álitaefnis verður að byggja á sem breiðustum grunni og það fæst einungis með umfjöllun, afgreiðslu og atkvæðagreiðslu í æðstu stofnun flokksins."
Svo mörg voru þau orð. Núna bíður það flokksþings að ræða þetta mál og afgreiða. Ég hef þá trú að sú tillaga verði felld.
Auðvitað eru ekki allir flokksmenn sammála mér og ég verða bara að búa við það í lýðræðislegri fjöldahreyfingu.
Ég er hins vegar ekki sáttur við hvernig starfandi formaður flokksins túlkar samþykkt þessarar tillögu á bloggi sínu eins og lesa má á meðfylgjandi hlekk http://www.valgerdur.is/index.php?pid=19&cid=835
Ég er alls ekki sammála þeirri túlkun Valgerðar að ".... Framsóknarflokkurinn hafi tekið þá afstöðu að stefna að aðildarviðræðum við Evrópusambandið..."
Framsóknarflokkurinn sem ég er í hefur ekki tekið aðra afstöðu en að ræða þetta eins og sjá má í samþykkt miðstjórnar.
Er ég kannski ekki sama Framsóknarflokki og Valgerður?
24.11.2008 | 11:32
EB og krónan
Öll umræða um EB-aðild og gjaldmiðil er að mínu mati marklaus um þessar mundir.
EB-sinnar "misnota" efnahagsástandið málefninu til framgangs. Þó er það vitað að EB-aðild kemur ekki til greina fyrr en við höfum náð tökum á ástandinu. Þegar það gerist verður ekki sama ástæða til að tala niður krónuna.
Á sama tíma eru EB-andstæðingar, eins og ég, fullir fordóma á afleiðingum inngöngu. Sjálfstæðið glatað - auðlindirnar fara úr okkar umsjá - Brussel tekur völdin.
Velti því fyrir mér hvernig almenningur getur tekið hlutlausa afstöðu þegar þannig er varið.
Umræðan er annarsvegar MEÐ og hins vegar Á MÓTI. Það er enginn sem veltir fyrir sér hlutlaust kostum og göllum.
Á meðan svo er þá er ekki von á góðu. Er einhver von til þess að það breytist??